151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður höfum ekki ólíkar skoðanir á höfundarétti þegar til stykkisins kemur og ég hlakka til að eiga í samræðum við hv. þingmann um þau málefni hvenær sem tækifæri gefst til þess öðru sinni.

Að mínu áliti er ekki erfitt að útskýra höfundarétt fyrir barni og það þarf bara að segja barni sögu sem hefur verið samin um þetta mál og samin um höfundarétt. Sú saga er okkur öllum kunn og heitir Litla gula hænan. Litla gula hænan fann fræ o.s.frv. Þetta snýst um að höfundur fái sanngjarnan hlut fyrir sköpunarverk sitt. Einhver býr eitthvað til, skapar eitthvað, og setur það síðan á markað og þá er sanngjarnt og eðlilegt að greitt sé gjald fyrir afnot af því, það er ekkert flókið.

Það sem er flókið er að tæknin hefur gert okkur kleift að nálgast höfundarverk fólks, og þá er ég ekki bara að tala um bækur heldur hvers lags höfundarverk, og hefur nánast ýtt upp að okkur þeim möguleikum, og hreinlega erfitt að verjast því, að nýta sér tæknina til þess að taka eiginlega traustataki höfundarverk alls kyns listamanna. Þetta hefur verið óeðlilegt ástand um langan aldur, þ.e. tæknin hefur ekki rímað við listamennina og þetta hefur kippt fótunum dálítið mikið undan starfsgrundvelli listamanna og þeirra atvinnugreina sem gera listamönnum kleift að búa til sína list og þá er ég að tala um bókaútgáfu og um kvikmyndaverin, hljómplötuiðnaðinn og þetta allt saman. Þetta hefur kippt rekstrargrundvelli undan þessu og hefur verið mjög óeðlilegt ástand og ég vona að við séum smám saman að finna leiðina inn í eðlilegt rekstrarumhverfi á þessu sviði.