151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram með þær heimspekilegu vangaveltur sem við höfum verið í í sambandi við höfundarétt í þessu máli. Fyrst vil ég segja að ég styð málið þrátt fyrir að í því séu ákvæði sem ég er ekki sannfærður um að séu endilega nauðsynleg eða yfir höfuð skynsamleg, þ.e. hvað það varðar að bæta höfundum sérstaklega það að verk þeirra séu aðlöguð fólki með fatlanir. Ég hugsa nú að ég greiði atkvæði með málinu, ég giska á það núna. Ég á eftir að gera upp hug minn endanlega en mér finnst eðlilegt að við spyrjum okkur af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru.

Ef ég ætlaði að fara að tala um erfðir þá myndi málið vandast aðeins en þá værum við almennt að tala um það sem ég ætla að kalla hefðbundinn eignarrétt. Höfundaréttur er hluti af því sem í dag kallast almennt hefðbundinn eignarréttur en hann er mjög sérstök tegund af eignarrétti og lýtur mjög undarlegum lögmálum þegar á hólminn er komið. Ástæðan er sú að höfundaréttur varðar hugverk sem eru ekki búin til úr veraldlegum hlutum. Ástæðan fyrir því að við setjum verðmiða á hluti og bönnum það að stela t.d. er sú að það er ekki nóg handa öllum. Það er einhver skortur á öllum veraldlegum hlutum og vegna þess skorts höfum við fundið upp eignarréttinn og peninga og aðrar leiðir til þess að skiptast á eignum með það að markmiði að geta á einhvern hátt ráðstafað þessum veraldlegu hlutum með einhverjum skynsamlegum hætti, við getum alla vega reynt, með því fyrirkomulagi. Svo er allur gangur á því hversu vel tekst til og þarf þá réttarríki og mannréttindi og alls konar hluti til þess að láta dæmið ganga upp, fyrir utan auðvitað tiltölulega frjálsan markað.

Þegar kemur hins vegar að hugverkum þá blasir kannski við hið augljósa. Þegar hugverk er afritað þá er ekkert tekið af neinu. Ástæðan fyrir því að við látum eins og svo sé, og höfum löggjöf eins og svo sé, er að þetta var viðskiptamódelið sem var rökrétt á sínum tíma þegar prentsmiðjan var fundin upp og höfundaréttur fór að verða eitthvað sem menn þurftu að taka svolítið alvarlega. Þegar það hætti að vera mjög mikið vesen að afrita hugverk þá þurftu höfundar auðvitað að fá eitthvað greitt fyrir vinnu sína. Spurningin var hvernig. Það var auðvitað með því að afrita það módel sem við þekktum af veraldlegum hlutum, takmörkuðum gæðum, með öðrum orðum með því að búa til ákveðinn „gerviskort“. Gerviskorturinn felst í því að fólk má ekki afrita. Þaðan kemur skorturinn. Það er sá skortur sem býr til „verðmætið“, þ.e. verðið á vörunni sem höfundurinn selur síðan til að hafa ofan í sig og á. Það var ekkert órökrétt pæling við uppfinningu prentvélarinnar eða þegar afritun á hugverkum fór að verða mjög auðveld.

En eftir því sem tækninni fleygir fram, hún er komin á það stig núna, þá myndi ég segja að ef við værum fyrst núna að velta þessu fyrir okkur myndum við aldrei nokkurn tíma leggja til höfundaréttarkerfið sem við búum við í dag, hvorki á Íslandi né í útlöndum. Ég held að engum myndi detta það í hug. Ég held að það yrði ekki einu sinni umræða um það. Ástæðan fyrir þessu hygg ég að sé sú að þessi leið, þetta viðskiptamódel, sem við höfum hannað þennan eignarrétt eftir, gerir ráð fyrir kringumstæðum sem ekki eru lengur fyrir hendi. Upplýsingar eru í meginatriðum ókeypis. Það kostar sama og ekki neitt að afrita ógrynni af upplýsingum.

Það þýðir ekki endilega að ég standi hér með lausnina á þessu öllu saman. Ég veit ekki hvernig er best að búa til kerfi þannig að höfundar fái eitthvað fyrir sinn snúð, eitthvað sanngjarnt. Ég vil þó að það sé þannig, ég tel það mjög mikilvægt reyndar, bæði af sanngirnisástæðum og efnahagslegum ástæðum. En til að nefna nokkra hluti sem eru algjörlega á skjön við þessa hugmynd þá vil ég nefna baráttuna sem var lengi vel til staðar um það að setja lögbönn á hina og þessa vefi eins og Pirate Bay. Það er eiginlega komið úr allri umræðu í dag, jafn vel frá Pírötum, vegna þess að við höfum Netflix og Spotify. Það er ástæðan. Það er ekki vegna þess að lögbönnin hafi virkað svo rosalega vel að fólk hætti að sækja sér höfundaréttarvarið efni án þess að greiða fyrir það, heldur vegna þess að á markaðinn komu streymisveitur sem neytandanum fannst sanngjarnar og neytandinn sagði já við og er til í að borga fyrir.

Annað sem hefur líka gleymst, gleymdist þá og gleymist enn, er að hið kostaða efni er ekki bara í samkeppni við það sem er afritað í trássi við höfundarétt heldur einnig ókeypis efni sem er gefið út af sjálfboðaliðum eða áhugafólki. Þá er meira að segja komin einhvers konar blanda þar af og vil ég nefna Patrion.com. Það er áhugavert módel. Það eru ýmsir skaparar t.d. á YouTube sem búa til mjög góð, löng, vel gerð, vel unnin, tímafrek myndbönd um allt milli himins og jarðar, ýmist til skemmtunar, upplýsingar eða afþreyingar eða hvaðeina og fá borgað mánaðarlega frá áskrifendum sínum sem gefa einfaldlega peninga til að halda starfseminni gangandi. Í þessu módeli er engin þörf á að hindra útbreiðslu efnisins, ekki nein. Þvert á móti er það hagur höfundanna að myndböndin fari sem víðast og að sem flestir horfi á þau, jafnvel án þess að borga. Þessi módel eru enn þá í þróun og ekki ljóst hvar þau enda. Ég er ekki með lausnina hér og reyndar er ég ekki viss um að það sé hlutverk Alþingis að finna lausnina í sjálfu sér, það er miklu frekar einkaaðila að gera tilraunir í þeim efnum vegna þess að við getum gert ráð fyrir því að flestar þeirra muni mistakast en einhverjar muni takast, eins og Spotify og Netflix. Ekki að þau tilteknu fyrirtæki séu laus við alla gagnrýni um það hvernig þau fara með höfunda, það er ekki þannig.

En aftur að því að sníða hugverk að þörfum fólks með fatlanir af einhverri sort. Þá segi ég það sem höfundur, sem hugbúnaðarhöfundur, sem bæði hefur gefið út ókeypis hugbúnað og unnið fyrir ýmis fyrirtæki í þremur löndum, að enginn þarf að borga mér neitt fyrir að sérsníða þann hugbúnað sem ég skapa, hvort sem ég geri hann gegn gjaldi eður ei, að þörfum fatlaðs fólks. Mér finnst það jafn sjálfsagt og að borga skatta til sveitarfélagsins míns þannig að það lagi kannski aðgengi fyrir fatlað fólk, mér finnst það nákvæmlega jafn sjálfsagt. Mér finnst það bara vera eðlilegur hluti af samfélagi að við mætum sérþörfum fólks með fatlanir. Að því sögðu er ég ekkert endilega á móti því í sjálfu sér að borga slíkar bætur eins og ég fór hérna yfir áðan en hef mínar efasemdir um það.

Ef við viljum fara lengra í efasemdum okkar um höfundarétt má spyrja að öðru. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson lagði á sínum tíma fram ágætt mál um að breyta höfundalögum þannig að höfundar að húsum, þ.e. arkitektar eða fólk sem var rétthafar yfir teikningum á húsum, hönnun á húsum, gætu ekki hindrað að fólk breytti húsum til að mæta þörf fatlaðs fólks fyrir aðgengi. Viðbrögðin við því frumvarpi voru áhugaverð frá höfundaréttarsamtökum, þau voru í stuttu máli að hv. þingmaður og ég skildum ekki höfundarétt. Svo komu ýmsar skýringar á því hvers vegna þetta væri slæm hugmynd, sem ég tel allar fráleitar, við hliðina á því sjálfsagða atriði að fólk sem á byggingu geti breytt henni þannig að það sé betra aðgengi án þess að spyrja einn eða neinn um það, nema hugsanlega verkfræðing sem getur gert verkið vel og örugglega.

Það er ákveðin kaldhæðni í því að hér sé síðan verið að leggja fram þetta mál og væntanlega samþykkja það þegar það er á ákveðinn hátt eðlislíkt, en þó jákvætt eins og ég segi, ég styð málið. Sömuleiðis, ef við ætlum að hafa þetta þannig að allt sem við gerum í lífinu sé þess eðlis að við eigum að eignast hlutdeild í tekjum af því, þá má spyrja: Hvers vegna er það ekki verkamaðurinn sem byggir húsið sem fær hluta af leigutekjum, og er það rökrétt, virðulegi forseti? Ég hygg ekki. Ég veit ekki af hverju það ætti að vera þannig. Ég veit hins vegar af hverju það er þannig þegar kemur að hugverkum, það er vegna þess að viðskiptamódelið þarf að vera einhvern veginn og við gerum það með því að reyna að troða eignarréttinum inn í það viðskiptamódel sem var fundið upp á sínum tíma, sem er að takmarka útgáfuna og búa þannig til verðmiða sem hægt er að nota til að greiða höfundum.

Ég býð ekki margar lausnir, virðulegur forseti, ég verð að viðurkenna það. Nú kem ég á torg með vandamál eða athugasemdir og efasemdir en það eru ákveðin jákvæð teikn á lofti gagnvart höfundarétti í heiminum að því leyti að viðskiptamódelin eru að breytast og snúast meira um þjónustu, jafnvel í hugbúnaði, það er orðið mun algengara að hugbúnaður sé veittur sem þjónustar frekar en vara. Það er auðvitað bara ein tegund af módeli, ekkert heilagri en aðrar. En ég hygg að það sé jákvætt í eðli sínu að ný viðskiptamódel séu prófuð áfram sem stóla ekki á það að banna einhverjum að nýta þær ótakmörkuðu auðlindir sem við þó höfum. Þegar hugverk er skapað, þótt það kosti tíma og erfiði, jafnvel efni, þá er það ótæmandi auðlind þegar það er orðið til. Sú þekking getur orðið ótæmandi auðlind í þeim skilningi að allir geta haft sömu þekkinguna án þess að neinn tapi, þvert á móti græðum við öll á því að við kunnum að lesa. Af hverju ættum við að þurfa að borga einhverjum fyrir þá þekkingu? Er ekki betra að við getum öll lært að lesa án þess að borga einhverjum? Er ekki betra að við getum farið á internetið og lært tungumál eins og okkur sýnist án þess að borga einum eða neinum? Það eru reyndar ýmsar leiðir sem ég myndi mæla með til að læra tungumál á netinu, ef út í það er farið, sem kosta peninga en þess er ekki þörf. Er það ekki betra? Er ekki betra að við getum einfaldlega afritað þann opna hugbúnað sem við notum, Firefox, Linux og ýmislegt fleira, eins og okkur sýnist? Mér finnst það betra, virðulegi forseti.

Ég hef ákveðna sérþekkingu á hugbúnaði, verandi úr þeim geira, og nota opinn hugbúnað sjálfur eins mikið og ég mögulega get innan skynsamlegra marka, næstum því alfarið í það minnsta, en síðan er ég reyndar líka með nokkrar tölvur sem eru með alls konar stýrikerfi, ég er með Windows-tölvu heima og Mac líka, fyrir hljóðvinnslu aðallega, og ég finn það inni í þessum kostuðu kerfum, þar sem eru takmarkanir á afritun á öllum mögulegum hlutum, hvað ég ófrjáls í þeim, hvað ég get lítið. Mér finnst það í grundvallaratriðum verra, mér finnst betra að mega en mega ekki, betra að geta en geta ekki. Ef við getum fundið viðskiptamódel sem leyfir fólki að geta og mega meira þannig að höfundar fái samt sanngjörn laun þá ættum við að sýna slíkum lausnum áhuga vegna þess að gamla módelið er gallað að mörgu leyti, eins og því sem ég hef farið yfir í þessari ræðu. Þetta mál sýnir í sjálfu sér mjög vel fram á þann galla. Að því sögðu er ekki annað hægt en að fagna því þegar nógu margir í heiminum sjá ljósið í þeim efnum og lýk ég ræðu minni á þeim jákvæðu nótum.