151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

563. mál
[16:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ítreka spurningu mína: Hvers vegna var ekki haft samband við notendur þjónustunnar þegar frumvarpið var samið? Það er haft samráð við Landspítala og starfsfólk heilbrigðisstofnana, það er haft samráð við dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið en ekki Landssamtökin Geðhjálp sem málið varðar mest — og þá væntanlega fulltrúa þeirra. Vissulega geta landssamtökin verið samþykk einhverju sem kemur fram í frumvarpinu. Skjóta þarf lagastoð undir það sem þar kemur fram. En það koma líka fram ýmsar athugasemdir við frumvarpið í umsögninni sem ekki var tekið tillit til í ráðuneytinu. Ég velti fyrir mér, talandi um þetta samráð og nú hefur hæstv. ráðherra reynslu af þingstörfum: Ef ráðuneytið telur ekki ástæðu til að bregðast við ábendingum notenda varðandi það sem er að finna í frumvarpinu á hæstv. ráðherra þá von á því að fulltrúar flokks hennar og fulltrúar meiri hlutans fari gegn því sem ráðherra setur fram hér, gegn umsögnum og ábendingum notenda þjónustunnar sem eru byggðar á reynslu notenda? Það er reynslumikið fólk sem ritar þessa umsögn, enda eru þetta landssamtök þeirra sem ýmist eru aðstandendur eða notendur þjónustunnar. Hvers vegna er ekki leitað fyrst til slíkrar þekkingar þegar gerðar eru breytingar á lögum eins og þessum?