151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[18:01]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mér hefur fundist áhugavert að fylgjast með þeirri umræðu sem hefur skapast í samfélaginu í kjölfar framlagningar þessa máls. Ég hef allan skilning á efasemdum og gagnrýni. Það þarf alltaf mikið að koma til þegar við skerðum tjáningu með lagasetningu og þar er sönnunarbyrðin á löggjafanum. Umræðan þarf að spegla alla hagsmuni að baki. Umræðan hefur að mínu mati ekki tekið á þeim grundvallarspurningum sem eru undirliggjandi og ekki heldur á heildarmati hagsmuna í samfélaginu. Ákveðin grundvallaratriði í þessari umræðu hafa einfaldlega verið röng, svo sem að hér sé verið að banna tilteknar skoðanir. Hér er verið að banna tiltekna tjáningu, ekki skoðun. Þetta heyrir maður mikið í hinni almennu opinberu umræðu.

Af opinberri umræðu mætti líka ætla að hér sé það að gerast í fyrsta sinn að fram sé lagt mál sem takmarkar tjáningu að einhverju leyti í orði eða riti, með orðum, myndum eða með öðrum hætti. Það er vitaskuld ekki svo. Hér vorum við fyrir nokkrum vikum að samþykkja lagasetningu um stafrænt kynferðislegt ofbeldi. Það er tjáning. Við henni er lögð refsing. Er það svo að við séum að gera þetta í fyrsta sinn? Auðvitað er það ekki þannig. Í samfélagslegu tilliti takmörkum við oft tjáningu, stundum skerðum við hana og í alvarlegustu tilvikum bönnum við hana að viðlagðri refsingu. Við höfum mörg dæmi úr löggjöfinni þar sem einmitt það er gert. Vegum við að stjórnarskránni með því að leggja refsingu við því að áreita fólk kynferðislega í orði eða í skrifuðum skilaboðum, svo að ég nefni dæmi? Er það atlaga að tjáningarfrelsinu? Það er vitaskuld ekki svo. Hinn heilagi réttur til tjáningar er nefnilega ekki takmarkalaus. Tjáningin getur ekki trompað önnur heilög mannréttindi einstaklinga eða samfélagsins alls.

Hægt er að taka mjög ómerkileg dæmi þar sem við erum, að vísu ekki að viðlagðri refsingu, að takmarka tjáningu, jafnvel mjög fallegra skoðana. Takmörkum við t.d. stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi þegar lögregla hefur afskipti af fólki vegna hávaða; þegar maður stendur kannski fyrir utan hús að næturþeli og hrópar ástarjátningu til konu, mjög fallega skoðun? Nágrannarnir geta kvartað vegna þess að þeir kunna ekki að meta hávaðann. Er það vegna þess að við séum að banna ástina, að leggja bann við tjáningunni? Nei, þetta er gert vegna þess að tjáning þessarar fallegu skoðunar raskar hagsmunum annarra. Vitaskuld er ekki lögð refsing við þessu þannig að ekki er um sambærileg dæmi að ræða, svo að ég rammi það rækilega inn. Ég er einfaldlega að reyna að sýna fram á það að þetta gerist daglega, að við sem samfélag höfum skoðun á því með hvaða hætti má tjá ákveðnar skoðanir, allt frá því að gera smávægilegar athugasemdir yfir í það að í alvarlegustu tilvikum erum við sem samfélag með lög sem leggja refsingu við tiltekinni tjáningu skoðunar. Mega fyrirtæki segja það sem þeim sýnist um samkeppnisaðila í auglýsingum? Nei, við erum með löggjöf sem bannar það. Ég er hér komin til að reyna að halda uppi þeim málstað að þetta gerum við dagsdaglega. Dæmin eru víða.

Það er þannig, ef við förum aftur inn í refsipólitíkina og sleppum þessum litlu dæmum, að mannréttindin og hin heilögu mannréttindi manneskjunnar eru fleiri en tjáningin og í eðlilegu samhengi spila þessar reglur alltaf saman. Meginreglan er sú að frelsið, sem er okkur öllum mikilvægt og er okkur öllum grundvallarréttur og er okkur öllum heilagur réttur, gengur samt aldrei lengra en svo að við drögum línuna við það að skerða rétt annarrar manneskju. Við takmörkum og við bönnum tegund tjáningar í alls konar samhengi. Stundum eru viðbrögðin lítil vegna þess að málið er lítið. Við veitum tiltal og svo liggur línan allt yfir í það að við erum komin í refsipólitík vegna þess að tjáningin er orðin svo alvarleg, svo hættuleg og kannski orðin svo ítrekuð að hún gengur gegn grundvallarréttindum annars fólks og jafnvel samfélagsins alls. Þá beitum við refsilöggjöfinni. Við erum að tala um tjáningu sem er svo hættuleg einstaklingum og samfélaginu öllu að við teljum ekki bara gagnlegt heldur nauðsynlegt að draga þá línu.

Þá er komið að efni þessa frumvarps. Ég nálgast málið með þeim hætti að hér sé ekki verið að banna bjánalegar skoðanir. Maður minn, þá hefði löggjafinn ekki neitt annað að gera. Ég er sammála hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um það að við værum í vanda stödd ef það væri erindið. Viðfangsefnið er hvernig á að eiga við tjáningu sem er hættuleg. Evrópa hefur sannarlega reynslu af því að það er verkefni sem við ættum að vera með hugann við. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið að það sé ekki augljóst að lagasetning sé verkfæri til þess. Það er ekki augljóst, en það er heldur ekki fráleitt.

Ef við skoðum þá lagasetningu sem við erum með í dag erum við með í íslenskum hegningarlögum ákvæði sem bannar hatursorðræðu, sem er í mínum huga klárlega og skýrlega algjört systurákvæði þessa ákvæðis, sama hugmynd býr að baki. Ég myndi vilja ganga svo langt að segja að í umræðum um þetta mál ættum við jafnframt að skoða og rýna það hver afstaða okkar er til ákvæðisins um hatursorðræðu. Ég skil vel að miklar efasemdir séu við mál af þessum toga en ég er líka þeirrar skoðunar að það sé vegna þess að umræða í samfélaginu, um tjáningarfrelsi og gildi þess og um mannréttindi, er takmörkuð. Viljum við hatursorðræðuákvæðið burt? Það er ákvæði sem bannar tjáningu ógeðfelldrar skoðunar, ákvæði nr. 233 sem hljóðar þannig:

„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu …“

Þetta getur hljómað sem eitthvert smælki á Facebook, að hér séum við að tala um einhverja lélega brandara sem séu komnir inn í refsilöggjöfina. Hefur það verið reyndin í praxís? Er það það sem löggjafinn er að fást við hér? Nei. Það er alltaf stórmál að setja refsiákvæði og sönnunarbyrðin er alltaf á þeim sem vilja takmarka tjáningu. En ég er að sama skapi þeirrar skoðunar að í samhengi við þetta mál þurfi menn að útskýra eða fara yfir það hvers vegna við erum með ákvæði sem orðar það svo að það sé orðið refsivert að hæðast að manneskju. Við erum ekki að refsivæða vonda brandara eða lélegar skoðanir. Þetta er gert til að taka á vandamáli sem við vitum og viðurkennum flest að er stórt samfélagslegt mein, rasismi og öll þessi pólitíska og hættulega umræða, sem mér finnst hv. þingmenn hafa farið mjög vel og rækilega yfir, og ég hef ekki miklu við það að bæta. Þetta er gert vegna skilnings á því að hatursorðræða er hættuleg tjáning fyrir tiltekna einstaklinga og samfélagið allt og leiðir mjög auðveldlega til ofbeldis, þar eru tengsl á milli.

Ég myndi að sama skapi, fyrst við erum í þessum kafla, fara í ákvæði sem kemur á eftir hatursorðræðuákvæðinu. Þar erum við með ákvæði sem varðar það t.d. að móðga eða smána maka sinn eða fyrrverandi maka, sem varðar fangelsi allt að tveimur árum. Erum við að tala um móðganir í matarboðum? Nei, þetta er ákvæði sem fjallar um andlegt ofbeldi, ekkert léttmeti. Hér er komið ákvæði sem kerfið notast við til að taka á ofbeldi í nánum samböndum og orðalagið er með þessum hætti til að geta náð utan um þær víddir sem andlegt ofbeldi getur leynst í. Tjáningarfrelsið er nefnilega ekki þannig að það geti gengið grimmdarlega á rétt annarra. Það er alls ekki þannig.

Önnur rök sem heyrast: Mun þetta lagaákvæði stöðva vandamálið? Það heyrist oft sem röksemd gegn þessu máli. Getur þetta lagaákvæði komið í veg fyrir brot? Nei, það gerir það ekki. Ekki frekar en hegningarlögin koma í veg fyrir morð eða kynferðisbrot, stafrænt kynferðisofbeldi, tjáninguna sem er þar að baki, ölvunarakstur. Lögin eru til þess að taka á brotum. Þau geta aldrei komið í veg fyrir þau.

Ég ætla ekki að eyða miklu púðri í röksemdafærsluna, sem mér finnst ég ekki greina hér en heyrist í opinberri umræðu, um að við þurfum þetta ekki. Þar myndi ég spyrja: Þurfum við ákvæði um hatursorðræðu? Í Evrópu gætir tilhneigingar til gyðingaandúðar, árása í orði og verki. Við höfum á Íslandi blessunarlega, vil ég leyfa mér að segja, mjög fáa dóma um hatursorðræðu, en Alþingi hefur engu að síður sett lög um þessi fátíðu brot vegna þess að við ætlum að taka á þeim þegar og ef þau koma upp. Mér finnst Evrópa ekki eiga þá sögu að baki að við getum talað eins og hér sé ekkert samhengi og ég vil árétta að mér finnst ég ekki greina það í umræðu hér í þingsal heldur er ég hér að vísa til opinberrar umræðu.

Aðrar röksemdir sem við heyrum úr frelsisáttinni, sem ég hef mikinn skilning á og samúð með, eru: Ætlum við virkilega að fara að setja upp lista yfir þau ummæli sem má viðhafa og ekki? Þá myndi ég segja: Hvað er XXV. kafli hegningarlaga annað en rammi og umgjörð þar sem verið er að verja friðhelgi einkalífs? Það mætti kalla lista en við erum að draga línu og höfum gert það áður. Lögin ramma inn einhver viðmið, tilgreina mörkin og önnur lagaákvæði í allri okkar refsilöggjöf búa ekki við það að hægt sé að segja sem svo: Við bönnum morð og með því munu þau ekki henda. Mikið væri nú gott ef löggjafinn væri þess umkominn að geta komið í veg fyrir glæpina.

Ég skildi orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar þannig að hann skilji þessa löggjöf sem svo að hún muni ekki sporna gegn þessum brotum en muni mögulega espa þau upp. Það finnst mér vera sjónarmið en mér finnst ég ekki hafa forsendur til að meta það. Ég myndi þó segja að ég fellst ekki endilega á að það eigi frekar við um þessi brot en önnur að löggjöfin ein og sér muni ýfa upp eitthvað sem er ekki þá þegar vandamál.

Í kaflanum þar sem við verjum friðhelgi einkalífs með refsilöggjöf erum við að gera það refsivert að skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi — allt eru það punktar sem geta virkað mjög smávægilegir þegar þeir eru ekki settir í samhengi — yfir í það að við erum að tala um hótanir sem er morgunljóst fyrir alla að við verðum að eiga við.

Aftur vil ég leyfa mér að segja að það mál sem hér er til meðferðar er í mínum huga náskylt hatursorðræðuákvæðinu, er systurákvæði þess. Tilhneigingin í Evrópu sýnir í mínum huga gyðingaandúð, árásir í orði og verki, og það er veruleikinn sem er að baki þessari tjáningu. Þessi tjáning er líka náskyld háttsemi, er leiðin til hennar, er undanfari og eftirmáli. Ég vona innilega að Ísland verði eitt Norðurlandanna um að upplifa ekki alvarlegar birtingarmyndir þessarar skoðunar en ég myndi ekki segja að ég sé bjartsýn á það. Það að brot séu sjaldgæf finnst mér ekki vera röksemd fyrir því að löggjafinn ætti ekki að hafa á þeim skoðun.

Virðulegi forseti. Ég hef allan skilning á því að þetta mál veki upp spurningar og viðbrögð, jafnvel hörð viðbrögð. Mér þætti eiginlega óheilbrigt ef svo væri ekki. Það er eðlilegt að við stöldrum við og ég hef mikinn skilning á því að fólk vilji staldra við hér. Mín röksemdafærsla að baki þessu máli, sem ég verð nú að viðurkenna að ég er ekkert sérlega bjartsýn á að hljóti mikinn framgang hér í þinginu, er sú að þetta mál þurfi einfaldlega að ræða í samhengi og í ljósi allra hagsmuna að baki, allra mannréttinda. Þegar við höfum gert það tökum við afstöðu. Þegar þetta mál er skoðað snýst það í mínum huga um það að hér er um að ræða tjáningu, framsetningu í orðum, í riti, jafnvel með myndum, sem er einstaklingum og samfélaginu hættuleg, tjáningu sem er sett fram í ákveðnum tilgangi og í ákveðnu samhengi. Þess vegna hefur Mannréttindadómstóll Evrópu samþykkt lagasetningu sem þessa. Þar að baki er heildarmat um vernd mannréttinda, um vernd allra mannréttinda.