151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[18:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég er í sjálfu sér með spurningu en ég er með athugasemdir við þetta og þætti vænt um að fá viðbrögð hv. þingmanns við því. Hv. þingmaður nefnir að bann við morðum fyrirbyggi ekki morð. Það er alveg rétt. En bannið við morðum er ekki notað beinlínis sem sannfæringartól til að hvetja til morða. Það er gert með löggjöf eins og þessari. Nýlega var gefin út bók á íslensku, því miður, sem er þýðing á sömu hræðilegu bók sem heitir — ja, ég ætla ekki að lesa það upp, áhugasamir geta flett því upp. Strax á blaðsíðu 14 er það notað beinlínis til þess að undirstrika punktinn með bókinni. Það er grundvallarmunur á því og banni við brotum á friðhelgi einkalífsins sem dæmi. Ef við erum með bann við því að deila dagbókum annars fólks, eða eitthvað því um líkt, þá fer ekki einhver og skrifar bók og setur þar inn persónuleg málefni fólks og segir: Sjáið, þetta er allt í lagi vegna þess að það er bannað. En það er gert þegar kemur að helfararafneitun og þetta er þáttur í því.

Ég ber virðingu fyrir því sem hv. þingmaður sagði, að hún hefði kannski ekki forsendur til að meta hversu sterkt þetta væri. Ég veit að það er kannski ekki sanngjarnt af mér að fullyrða eitthvað svona án þess að hafa gögn til að sýna hv. þingmanni. En ég skoða þessi gögn. Ég les þessa orðræðu. Ég kafa ofan í orðræðuna hjá þessum vitleysingum og þess vegna er ég þessarar skoðunar. Ég heyri hvað þeir segja sjálfir og hvað þeim sjálfum finnst vera sannfærandi, hvað það er sem þeir nota sjálfir til að tæla til sín nýliða. Það er m.a. löggjöf eins og þessi, því miður. En eins og ég segi þá hef ég svo sem ekki neina spurningu, ég vildi bara koma þessu að við hv. þingmann. Ég krefst svo sem ekki svara en gef þó hv. þingmanni tækifæri til að segja sína skoðun.