152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[11:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég tek undir þau sjónarmið hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar um að það eigi bara að fresta þessari umræðu. Ég held að við klárum hana, en hins vegar tek ég fyllilega undir sjónarmið hans vegna þess að í þessari umræðu hefur birst í rauninni fullkomið skeytingarleysi framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafanum. Hv. þm. Guðbrandur Einarsson nefndi ágætisdæmi um þjóðarleikvanginn. Þó að það væri ekki fjármagnað þá skipti það nú ekki máli að mati ráðherra vegna þess að það væri hægt að koma með peningana inn. Eins höfum við á undanförnum dögum bent ráðherrum á að það eru blikur á lofti varðandi stríðið í Úkraínu og kostnað vegna flóttamanna. Við höfum bent á að það þurfi að auka netöryggi. Ráðherrar hafa sagt að það þurfi ekkert að gera ráðstafanir í fjármálaáætluninni en síðan hafa einstakir ráðherrar komið og tilkynnt um einhver útgjöld. Það er þannig að fjármálaáætlun á að koma inn sem framtíðarsýn stjórnvalda til næstu ára og þau eiga að fá heimild hjá Alþingi fyrir fjármögnun á því, ekki öfugt.