152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða þennan ótrúlega doðrant, 500 blaðsíðna rit, sem ég kalla góðlátlega skáldsögu með fjárhagslegum bröndurum á kostnað þeirra sem síst skyldi. Áðan las hæstv. ráðherra orðrétt, held ég, upp og ég ætla að lesa það aftur:

„Meginmarkmið málefnasviðsins er að öll þjónusta og stuðningur, þar á meðal bætur og greiðslur, stuðli að því að fatlað fólk, fólk með örorku eða skerta starfsgetu geti lifað innihaldsríku og sjálfstæðu lífi. Afkoma örorkulífeyrisþega verði áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.“

Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er enn eitt skiptið þar sem verið er að lofa einhverju sem aldrei hefur staðist. Það kom hérna fram að það væri 100.000 kr. kjaragliðnun, sem vantar upp á hjá öryrkjum. Það eru 100.000 kr. eftir skatta sem vantar upp á, kjaragliðnunin, og á eftir að stóraukast. Í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 2,5% hækkun hjá lífeyrisþegum og hæstv. ráðherra var að hæla sér af 1% hækkun sem var núna fyrir áramót, 1% hækkun, var 3,6%, varð 4,6% og nú er 7% verðbólga. Allt hefur hækkað, olía, matur. Fólkið, sem er þarna úti og sendir mér upplýsingar og spyr hvernig í ósköpunum það eigi að eiga fyrir mat þegar tvær vikur eru liðnar af mánuðinum, veit að það getur ekki beðið næstu fjögur árin eftir réttlætinu.