152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:22]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér kemur fram sú skoðun hv. þingmanns að ríki og sveitarfélög dragi lappirnar þegar kemur að störfum fyrir fatlað fólk. Ég vil bara segja það að það að setja fjármagn sérstaklega í að fjölga störfum er einmitt til þess að takast á við það að ríki og sveitarfélög sem og hinn almenni markaður geti verið með fleiri störf sem henta fötluðu fólki. Þetta er eitthvað sem mér finnst algjört grundvallaratriði. Hv. þingmaður spyr líka: Af hverju er þetta svona flókið? Af hverju ekki bara hægt að segja fólki að fara út og finna sér vinnu? Já, það hljómar mjög einfalt, það eigi bara að vera þannig. En staðreynd málsins er kannski sú að margt af þessu fólki þarf einfaldlega aðstoð til þess og það er sú aðstoð sem að mínu viti á að veita, hið opinbera á að vera með kerfi sem getur stutt við fólk þar sem það fer í endurhæfingu, þar sem fólk er gripið áður en það dettur, þegar kulnun er farin að gera vart við sig eða stoðkerfisvandamál eða hvað það er, þannig að hægt sé að grípa fólk strax og koma í veg fyrir í fyrsta lagi að það detti af vinnumarkaði og reyna þá að búa til sveigjanlegri störf fyrir það eða hlutastörf. Þarna eru risavaxin verkefni og þarna á að stíga skref bæði á þessu ári og næsta.

Varðandi síðan það sem hv. þingmaður nefnir um búsetuskerðingar þá féll dómur í Hæstarétti í gær sem hv. þingmaður hefur án efa kynnt sér og við erum að sjálfsögðu að fara yfir þann dóm í ráðuneytinu og við honum verður brugðist.