152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:53]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna um málefni eldra fólks. Mig langar fyrst að segja að með kerfisbreytingunni sem var gerð árið 2017 voru stigin gríðarlega stór skref til að einfalda kerfið en líka að bæta kjör eldra fólks og við megum ekki gleyma því í þessari umræðu, bara alls ekki. Í tíð forvera míns í starfi var þeim sem hafa minnst á milli handanna meðal eldra fólks gerð sérstaklega skil með sérstakri lagasetningu sem hífði það fólk verulega upp. Þar með var tekist á við vanda hóps þar sem voru, ef ég man þetta rétt, 3.000–4.000 manns sem höfðu lakasta afkomu í hópi eldra fólks. Þar var þeim mætt. Það var gríðarlega mikilvægt skref. Það sem við eigum að mínu mati að einbeita okkur að í málefnum eldra fólks núna á næstu árum er að halda áfram að taka fyrir þá hópa sem eru með minnst á milli handanna. Það finnst mér að eigi að vera forgangsröðunin. Við vinnum eftir því í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Ég tek undir að það er mikilvægt að fólk hafi tækifæri til atvinnuþátttöku en breytingar á frítekjumarki atvinnutekna nýtast mun færri líkt og hv. þingmaður nefndi og ég held að það sem við þurfum að skoða sé annaðhvort að byggja á þeirri sértæku lagasetningu sem hífði upp það fólk sem minnst hafa á milli handanna eða fara að huga að hækkun á almenna frítekjumarkinu sem myndi nýtast fleirum en kostar líka miklu, miklu meira.