152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:16]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna um landbúnað og nýliðun í landbúnaði sem er auðvitað eitthvað sem við þurfum að sjá eflast á komandi misserum og árum. Ég tek hjartanlega undir það í máli hv. þingmanns. Þessu er þannig fyrir komið í fjármálaáætlun að þetta er hluti af búvörusamningunum, nýliðunarstuðningurinn. Það er innbyggt í samninginn og það var ráðist í endurskoðun núna 2019 og á að gerast aftur á næsta ári þannig að það er mikill vilji til að stuðla að nýliðun og ég vonast bara til þess að þetta atriði verði sérstaklega tekið fyrir í þeirri endurskoðun þó svo að ég hafi nú ekki fyrir framan mig nákvæmlega hvernig hún muni verða. En ég tel sjálfur mikilvægt að svo sé. Í mörgu tilliti voru ákveðin skref stigin á síðasta kjörtímabili í jarðamálunum sem eiga bæði að stuðla að því að færri jarðir safnist á fárra hendur sem á að geta stuðlað að nýliðun eða að það séu alla vega meiri líkur á nýliðun. En ég held líka að við þurfum að horfa til þess að sveitirnar okkar séu þannig að þær séu jarðvegur fyrir fleiri tækifæri sem snúa kannski að fleiru en hefðbundnum landbúnaði, einfaldlega til þess að það sé öflugt mannlíf í sveitum. Það styður síðan líka aftur við landbúnaðinn og við það að fólk hafi áhuga á því að búa til sveita því það er samfélagið til sveitanna sem er grundvallaratriði til að búa til byggðafestuna.