152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:25]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna hér um sjávarútvegsmál. Mig langar fyrst til að minna á að á sínum tíma þegar kvótasetningin var lögð á þá var það viðbragð við ofveiði. Þá var það viðbragð við því að við værum ekki að stunda sjálfbærar veiðar eða að það stefndi kannski í það með suma stofna. Það var slæm staða ákveðinna tegunda og þar fram eftir götunum. En þegar hv. þingmaður nefnir að skoða hvað sé að og hvað þurfi að gera o.s.frv. þá hefur hæstv. matvælaráðherra einmitt hafið vinnu við að endurskoða þetta kerfi. Hún hefur kynnt mjög ítarlegan undirbúning að vinnu um mjög víðtækt samráð um þessi mál í samráðsgátt stjórnvalda. Ég treysti hæstv. matvælaráðherra kvenna best og manna best til að leiða þá vinnu.

Hér spyr hv. þingmaður hvort við þurfum ekki óháða aðila til að taka út fiskstofnana okkar. Ég lít nú svo á að Hafrannsóknastofnun sé óháður ríkisaðili sem hefur þetta hlutverk með höndum. Það er hins vegar ekkert alltaf einfalt að setja fram ráðgjöf sem byggir á kviku vistkerfi sjávar. En við erum að veiða samkvæmt ráðgjöf. Við erum að reyna að passa upp á stofnana okkar, upp á sjálfbærni þeirra og það höfum við gert í mörg ár. Ég veit ekki hver staðan væri nú ef ekki hefði verið gripið inn í. Það er ekki gott að segja. En við höfum séð víða um heim að stofnar hafa farið ansi illa þegar ekki hefur verið fiskveiðistjórn.