152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:27]
Horfa

Georg Eiður Arnarson (Flf):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra svörin, en smá leiðrétting: Þegar ég er að tala um að taka út þá á ég við aðferðafræði Hafró við að mæla stofnana. Sú aðferð sem er notuð í dag er togararall sem sett var á 1984 og hefur skilað okkur engu, því að staðreyndin er sú að við veiddum miklu meira fyrir daga kvótakerfisins. En okkur var lofað því að ef við færum algjörlega eftir Hafró þá myndum við veiða miklu meira. Þetta mistókst algjörlega.

Síðan eru fleiri mál. Til dæmis voru veiðigjöldin færð árið 2016, minnir mig, yfir á leiguliðana á Íslandi, þannig að útgerð sem í dag leigir frá sér þorsk eða ýsu á 350–400 kr. kílóið borgar engin veiðigjöld, ekki krónu. En leiguliðinn þarf að standa skil á veiðigjöldum. Hvers konar sanngirni er þetta? Svo getum við talað um strandveiðarnar. Ég lít alltaf á strandveiðarnar sem ljósið í myrkrinu í kvótakerfinu, eina frelsið sem menn hafa í dag og það er ekki einu sinni búið að tryggja aflaheimildir fyrir því kerfi. En vonandi kemur það.