152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:43]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Þegar við erum komin á þennan stað, í fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun til næstu fimm ára, vil ég byrja á að þakka fyrir þá umræðu. Hún er sem áður innihaldsrík og sá háttur sem við höfum haft á undanfarin ár, að láta einstaka fagráðherra ræða sína málaflokka, skýra fyrirætlanir sínar, ræða um markmið og mælikvarða, hefur í flestum tilfellum gagnast okkur vel, ekki síst fyrir hv. fjárlaganefnd að fylgja eftir í sinni vinnu við nánari rýningu á framlagðri tillögu.

Virðulegur forseti. Mig langar að grípa hér niður í greinargerð þingsályktunartillögunnar á bls. 106 þar sem fjallað er um árangursupplýsingar sem styðja við áætlanagerð og framkvæmd. Þar segir:

„Með árangurstengdri áætlanagerð er ferlið sem felst í áætlanagerð og framkvæmd fjárlaga styrkt enn frekar þar sem útgjöld til einstakra málefnasviða og málaflokka eru sett í frekara samhengi við stefnumörkun stjórnvalda. Þá eru mælikvarðar nýttir til að fylgjast með framgangi aðgerða með tilliti til mats á áhrifum og ávinningi. Þannig getur aðferðafræðin varpað skýrara ljósi á það hvort ráðstöfun fjárheimilda sé með þeim hætti sem lagt er upp með í byrjun, þ.e. hvort tiltekin starfsemi eða verkefni skili tilætluðum árangri fyrir samfélagið en ekki eingöngu að rekstur og afkoma séu í samræmi við fjárveitingar.“

Ég held að það sé mikilvægt, eins og skýrt hefur komið fram í umræðunni hér undanfarið, og ég var að vísa til áðan, hvað varðar spurningar og svör eða umræður við einstaka fagráðherra, að við séum einmitt með augun á mælikvörðum og markmiðum sem birtast í þessari fjármálaáætlun. Hlutverk fjármálaáætlunar er að reyna að horfa til lengri tíma, er að undirbyggja fyrirsjáanleika, er að draga fram hver markmið eru frá hendi stjórnvalda og hvernig við ætlum að ná þeim. Það er meginhlutverk fjármálaáætlunar. Fjármálaáætlun er þar af leiðandi einhvers konar andlag að fjárlagagerð að hausti.

Hér hafa komið fram fjölmargar skoðanir og fjölmargar tillögur og sjónarmið sem vert er að gefa gaum. Seint verðum við öll sammála um hvernig við viljum verja umræddum fjármunum og hvar við teljum að ekki megi gera betur. Öllu þessu þurfum við að taka mið af þegar við förum að rýna þessa mælikvarða og þau markmið sem við setjum okkur.

Ég sagði í fyrri ræðu minni um þessa fjármálaáætlun, virðulegur forseti, að mér fyndist ramminn vera býsna þaninn. Ég vil kannski ekki taka svo djúpt í árinni að segja að við séum að fara okkur að voða en lítið má út af bregða. Þess vegna birtast í þessari fjármálaáætlun, sem undirbyggð er af spám, sem undirbyggð er af þeim tölum sem í henni eru, allar forsendur fyrir því að hér muni hlutirnir ganga fram með þeim hætti sem spáð er og lítið megi út af bregða. Við höfum á fyrri árum rætt um fjármálaáætlanir og horft til lengri tíma, hvort sem það er á samdráttarskeiði eða hagvaxtarskeiði. Það verður alltaf þannig, virðulegur forseti, af því að ég er að nefna hér mælikvarðana og markmiðin, að síðan verður raunveruleikinn sá að við verðum að bregðast við. Auðvitað eru við sjóndeildarhringinn þættir eins og gerð kjarasamninga, aðrar mögulegar breytingar í efnahagslífi, utanaðkomandi, t.d. stríðsrekstur. Allt hefur þetta áhrif. Því er mikilvægt að við missum ekki sjónar á þeim markmiðum sem við settum okkur og hvernig við ætlum að mæla árangur í þeim efnum.

Það hefur líka verið mikið rætt í þessari umræðu hvort þetta sé kerfislægur útreikningur. Já, það má alveg segja það, virðulegur forseti, að þetta sé á margan hátt kerfisáætlun að því leyti að við erum að framreikna okkur frá einum lið til annars til að lýsa ákveðinni þróun. En það er einmitt hlutverk þingsins og hlutverk þingmanna, umræðunnar hér í þingsal og vinnunnar í fjárlaganefnd, að geta haft skoðun á því hvort sá kerfisútreikningur sé í samræmi við pólitíska stefnu sem er undirliggjandi og við ætlum að ná fram sem hér störfum. Hlutverk þingmanna, hlutverk umræðunnar, kristallast einmitt á nákvæmlega þeim stað, eins og ég segi, að skoða mælikvarðana og markmiðin en hafa á því sterkar skoðanir hvort markmiðunum sé mögulega náð miðað við fyrirliggjandi áætlanir.

Virðulegur forseti. Þetta er kannski í eðli sínu svolítið tæknileg nálgun hjá mér á fjármálaáætlunarvinnunni en það hefur sýnt sig á undanförnum árum að hlutverk fjármálaáætlunar sem tannar í tannhjóli í ríkisfjármálagangverkinu hefur sannað gildi sitt en það er þó ekki þannig að ytri áföll, ytri breytingar, muni ekki, frá þeim tíma sem við samþykkjum fjármálaáætlun og þangað til við ræðum um fjárlög, geta haft áhrif. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það áfram.

Meginskilaboð fjármálaáætlunar, sem við ræðum hér, finnst mér vera hægt að ramma inn í þessari setningu: Hér er fjármálaáætlun sem ætlað er að styðja við vöxt í efnahagslífinu, sem ætlað er að styðja við vöxt í landsframleiðslunni af því að það er okkur gríðarlega mikilvægt. Það er þannig sem við getum styrkt velferðarkerfið okkar. Það er þannig sem við getum haldið áfram fjárfestingu. Það er þannig sem við getum skapað hér gott samfélag og gott mannlíf. Markmiðið um að stöðva skuldasöfnun er raunhæft. Það er mjög mikilvægt að við náum því markmiði.

Ég segi því, virðulegur forseti, við lok þessarar fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun: Verkefnið er ærið í fjárlaganefnd, að takast á við, að rýna og skoða, hafa síðan á því skoðun hvernig við erum að beita mælikvörðum og markmiðum og mæta síðan til seinni umræðna um þessa fjármálaáætlun. Ég þakka fyrir umræðuna.