152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér í lokaumræðu um fjármálaáætlun 2023–2027, mikil bók, 500 bls. Um hvað? Ég held það sé betra að ræða um það hvað er ekki í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, hvað vantar. Þessi fjármálaáætlun boðar engar breytingar heldur öfugt. Ekkert verður gert til að vinna gegn 6,7% verðbólgu. Það eina sem ríkisstjórnin var að hæla sér af er 1% auka umfram 3,6% sem hún var með um síðustu áramót, 4,6% hækkun til almannatryggingaþega í 7% verðbólgu. Það kemur líka fram að ekkert er gert til að leiðrétta kjaragliðnun öryrkja í fjármálaáætluninni. Staðreyndin liggur á borðinu. Kjaragliðnunin er það mikil að öryrkjar ættu að hafa 100.000 kr. meira á mánuði eftir skatt en þeir hafa í dag. Það myndi kannski rétt draga þá upp fyrir fátæktarmörkin. En það er ekki verið að leiðrétta það hér.

Frá 2023–2027 er hækkunin hjá ríkisstjórninni á almannatryggingaþega 2,5% í 7% verðbólgu, mikið örlæti það. Hún þykist ætla að ná verðbólgunni niður en það eru draumórar, verðbólgan er á fleygiferð. Staðreyndin er því miður sú að það er hellingur af fólki sem á ekki fyrir mat, á ekki fyrir lyfjum, á ekki fyrir himinhárri leigu, sem hefur hækkað undanfarna mánuði og ár. Ekkert verður gert til að vinna niður biðlista í heilbrigðiskerfinu. Ekkert verður gert til að ráða bót á mannekluvanda heilbrigðiskerfisins, hjúkrunarfræðingar á bráðavakt að gefast upp, vantar tíu, tíu að hverfa frá. Spítalinn ræður ekki við álagið. Það er með ólíkindum að á sama tíma er ekki neitt í þessari fjármálaáætlun um það hvernig á að leysa þann vanda að öldruðum er haldið í gíslingu inni á Landspítala, í dýrasta mögulega úrræðinu. Er lausn næstu fjögur til fimm árin á því vandamáli í fjármálaáætluninni? Nei.

Hér er heldur ekkert um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að sjá til þess að þjóðin fái sanngjarnt endurgjald af sjávarauðlindinni. Þessi fjármálaáætlun er óbreytt ástand, engar lausnir. Þeir einu sem geta verið ánægðir með þessa fjármálaáætlun eru ríkisstjórnarflokkarnir og þeir sem hafa það gott. Þeir sem hafa það slæmt, í boði núverandi ríkisstjórnar, munu ekki halda óbreyttum kjörum eða kaupmætti, hann mun versna næstu fjögur til fimm árin. Hver ráðherrann á fætur öðrum hefur sett fyrirvara við það að á hans málefnasviði kunni breytingar að vera gerðar á næstu árum sem kunni að leiða til þess að farið verði í hugsanleg verkefni sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þjóðinni í aðdraganda kosninga. Hvers vegna eru þessi hugsanlegu verkefni ekki strax sett í áætlunina? Þá kemur maður sérstaklega að þeim hugsanlegu verkefnum sem eiga að koma til móts við þá sem eru fátækastir. Þetta eru svo fáir, það segir hæstv. fjármálaráðherra hvað eftir annað, en það ætti þá ekki að kosta mikið. Það er líka komið í ljós að það kostar ekkert að útrýma fátækt barna, hver króna sem lögð er í það skilar sér tífalt til baka. Þá spyr maður: Hvers vegna í ósköpunum er ekki farið út í þá sálma?

Ég minni á að þessi áætlun var lögð til grundvallar við gerð fjárlaga í haust og því þarf að tryggja fjármagn ef fara á í verkefni eins og endurskoðun almannatrygginga, rekstrarvanda Landspítalans, byggingu þjóðarleikvangs eða aðgerðir til að sporna gegn verðbólgu. Það er ljóst að það er ekki hluti af þessari fjárlagaáætlun að leiðrétta hrein og klár brot á stjórnarskránni, hrein og klár brot á mannréttindum. Síðasta ríkisstjórn leiðrétti búsetuskerðingar á eldri borgara en setti þann fyrirvara að þeir fengju ekki nema 90% af lágmarkslaunum, sem auðvitað er skýlaust brot á jafnrétti stjórnarskrár, klár mismunun. Það dugði ekki heldur til. Ríkisstjórninni fannst það ekki nóg. Króna á móti krónu aftur, algjörir snillingar. Króna á móti krónu, sem var búið að marglofa að afnema. Loforðið hefur stoppað á 65 aurum á móti krónu og hún gat ekki einu sinni boðið þessum hópi upp á að fá 65 aura á móti krónu. Nei, hún varð að mismuna fólki. Og hver er niðurstaðan, dómur Hæstaréttar? Hæstiréttur dæmdi hana til að greiða búsetuskerðingar, sex ára barátta tapaðist á öllum dómstigum. Hvaða skilaboð eru þetta til þeirra verst settu í samfélaginu? Skýr skilaboð. Þið fáið ekkert fyrr en í fulla hnefana, það skuluð fara fyrir dómstóla, hvert einasta dómstig. Það er ömurlegt til þess að vita að þarna undir, í þessum dómi, var ekki fátækt fólk heldur fólk sem lifði við sárafátækt. Það er með ólíkindum í okkar ríka samfélagi að við skulum leyfa okkur að hafa hlutina þannig að hægt sé að níðast á fólki til að reyna að pína það til að lifa á einhverju sem er algerlega vonlaust að lifa af á Íslandi. Hæstiréttur sló á fingur ríkisstjórnarinnar. Nú verðum við að sjá: Mun ríkisstjórnin sjá til þess að leiðrétta þennan hóp? Því miður, það verður ekki hægt að leiðrétta alla. Sumir lifðu það ekki af að bíða eftir leiðréttingu og er ömurlegt til þess að vita að við skulum vera í þannig samfélagi. Þetta er eitt af þeim málum sem ég hef barist hatrammlega fyrir, að reyna að fá þetta leiðrétt. Ég barðist fyrir því á sínum tíma að ríkisstjórnin setti ekki lög um búsetuskerðingar aldraðra, mismunaði fólki ekki svona gróflega. En það dugði ekki til, það var sko ekki á þeirra borði.

Við erum með hóp veikra og aldraðra. Við erum með biðlista, við erum að sigla inn í ófremdarástand í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu. En því miður, þessi bók segir okkur að það á ekki að taka á þeim vanda, ekki fyrir þá sem þurfa virkilega á að halda. Þetta er ekki fjármálaáætlun fyrir þá verst settu á Íslandi. Nei, þeir verst settu á Íslandi, í boði þessarar ríkisstjórnar, skulu herða sultarólina næstu fjögur til fimm árin. Þeir skulu gera sér grein fyrir því að þeir eru ekki að fá mannsæmandi framfærslu næstu árin. Ef þeir telja á sér brotið þá er eina leiðin að fara dómstólaleiðina, fara alla leið í héraðsdóm, Landsrétt, annars fá þeir ekki neitt.