152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar ljóst varð að heimsfaraldur kórónuveirunnar yrði með okkur um lengri hríð réðumst við í umfangsmestu efnahagsaðgerðir í sögu Íslands. Þær aðgerðir eru veigameiri en þær sem ráðist var í eftir hrun og grundvölluðust fyrst og fremst á þeirri hugmyndafræði að nýta ríkissjóð til að standa vörð um þá velsæld sem byggðist upp á fyrri hluta síðasta kjörtímabils. Þrátt fyrir að þjóðarskútan hafi tekið á sig brot í ólgusjónum öllum var hún vel búin til þess og nú þegar fleyinu hefur verið siglt í höfn sjáum við að árangurinn er ótvíræður. Niðurstaðan er aukinn kaupmáttur sem enn vex og sterk fjárhagsstaða íslenskra heimila. Þá er atvinnuleysi lágt og allar líkur á að sú þróun haldi áfram með bættum atvinnuhorfum og aukningu í komu ferðamanna en fjöldi aðgerða vegna faraldursins miðaði sérstaklega að því að halda atvinnulífinu og fyrirtækjunum starfhæfum á tímabilinu og fólki í vinnu.

Árið 2013 sýndi lífskjararannsókn Hagstofunnar að rúm 13% landsmanna ættu mjög erfitt með að ná endum saman. Sá hópur er nú um 4% Íslendinga og það er sem betur fer jákvæð þróun. Nú þegar öll meðaltöl vísa á einn veg er eftir sem áður mikilvægt að halda vel utan um þann hóp sem eftir stendur, hóp sem síst hefur notið efnahagsbatans og glímir t.d. við háan húsnæðiskostnað. Á nýliðnu kjörtímabili komum við aftur á þriggja þrepa skattkerfi og lækkuðum skattbyrði til handa efnahagslega viðkvæmum hópum. Nú um áramótin tóku gildi ný framleiðniviðmið við útreikning persónuafsláttar og þrepamarka. Okkur ber enda skylda til að nýta jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Til þess er það og þannig getum við dregið úr skattskriði þeirra sem hafa lægri tekjur. Mikilvægast tel ég að við aukum enn sveigjanleika og viðnámsþrótt heimila gagnvart sveiflum í efnahagslífinu.

Í ræðu minni á þriðjudaginn stiklaði ég á stóru um nýsköpun. Við höfum verið svo lánsöm hér á landi að eiga öflugt atvinnulíf og síðustu áratugi hafa sprottið upp sérhæfð nýsköpunarfyrirtæki sem hafa komist vel á legg. Við höfum þannig farið frá því að treysta á eina uppistöðugrein yfir í að fjölga styrkum stoðum í atvinnulífinu svo um munar. Í morgun fór atvinnuveganefnd Alþingis í afar skemmtilega heimsókn í Grósku þar sem við fengum kynningu á aldeilis frábæru og afar fjölbreyttu nýsköpunarstarfi. Í þessu samhengi eru ríflega 10% af útflutningstekjum frá hugverkaiðnaði sem er 50% aukning frá árinu 2018 og óx tækni- og hugverkaiðnaður um 20% á árunum 2018–2021. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá atvinnulífið vaxa þrátt fyrir heimsfaraldurinn, enda vitum við öll að öflugt atvinnulíf er undirstaða vaxandi velferðar.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein þar sem flest störf töpuðust og er gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 310 millj. kr. á gildistíma áætlunarinnar. Þó er farið varlega í sakirnar enda mikilvægt að gæta að jafnvægi þegar dregið er úr tímabundnum stuðningi og mun afnám gistináttaskattsins t.d. gilda út árið 2023. Árið 2018 komu hingað ríflega 2 milljónir ferðamanna og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Mikilvægast er þó að ferðaþjónustan úti um allt land verði sjálfbær atvinnugrein í sátt við náttúru og samfélag. Horfa þarf sérstaklega til innviðauppbyggingar enda hefur fjöldi ökutækja á vegum aukist gríðarlega frá því að ferðaþjónustunni fór að vaxa fiskur um hrygg. Við þurfum að halda áfram að byggja upp hraðhleðslustöðvar út um land, styðja við orkuskipti hjá bílaleigum og öðrum þeim sem leigja ferðamönnum bíla. Sömuleiðis verðum við að halda vel utan um fjölsótta ferðamannastaði til handa náttúrunni. Það gerum við með virkri álagsstýringu. Enn fremur þarf að tryggja að færð sé með besta móti allt árið um kring, bæði með auknum snjómokstri en líka með mikilvægum samgöngubótum. Á það ekki síst við um okkar brothættustu byggðir en ferðamenn kjósa ekki síst að heimsækja þá staði.

Víða um land má sjá byggðir lifna við fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar þar sem hún getur verið mikil lyftistöng fyrir samfélög. En ferðaþjónustan er fyrst og fremst starfrækt að sumarlagi í hinum dreifðu byggðum. Þess vegna er mikilvægt að tryggja heilsársstörf, störf með staðsetningu, ekki síst opinber störf, um allt land. Í því samhengi vil ég sérstaklega geta þess að við höfum byggt upp gríðarlega góða þjónustu sýslumanna víða um land sem við þurfum að hlúa betur að og standa við þau fyrirheit sem gefin voru þegar sú starfsemi var aðskilin frá starfi lögreglunnar, þ.e. að fjölga verkefnum. Þá eru líka sóknarfæri í því að nýta tæknilausnir í hinum ýmsu geirum, stafvæðinguna, í meira mæli úti um land. Heimili eru jú í póstnúmerum hringinn í kringum landið og ekkert stendur í vegi fyrir því að heimavinna sé unnin til jafns alls staðar, hvort sem það eru opinber störf eða önnur.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins skipta um takt og fjalla um velferðarmál. Á síðasta kjörtímabili var loksins gerð alvara úr því að setja geðheilbrigðismál á oddinn. Fram til ársins 2025 nemur varanleg heildaraukning til geðheilbrigðismála ríflega 1.650 millj. kr. og erum við að ræða um málaflokk sem hefur verið undirfjármagnaður til áratuga. Eins og við mörg vitum hefur ofnotkun á geð- og verkjalyfjum færst í aukana, ekki síst meðal ungmenna, og hefur verið uppi ákall um að brugðist sé sérstaklega við því á síðustu árum. Með þessum auknu framlögum verður hægt að veita áframhaldandi geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum um land allt og festa í sessi þær stoðir. Góð andleg heilsa er sannarlega hluti af þeirri velsæld sem við viljum búa okkur og því til mikils að vinna að gera málaflokknum góð skil.

Árið 2018 var hafist handa við breytingar á kostnaðarþátttöku öryrkja og aldraðra vegna heilbrigðisþjónustu. Greiðsluþátttaka vegna tannlæknaþjónustu og síðar fleiri sjúkratryggingaliða, t.d. komugjöld sjúklinga á heilbrigðisstofnanir, komst á á síðasta kjörtímabili. Áfram verður unnið að því að draga úr greiðsluþátttöku og nemur útgjaldaaukning til heilbrigðismála ríflega 1.600 millj. kr. sem svarar til um 9% hækkunar að raunvirði. En það er að mörgu að hyggja þegar kemur að því að styrkja heilbrigðiskerfið, ekki síst að fjölga úrræðum fyrir eldra fólk í heimahúsum, enda erum við einungis að verja um 0,1% af vergri landsframleiðslu til málaflokksins en Norðurlandaþjóðirnar verja á bilinu 0,8–1,5% í þau mál, eins og bent var á í skýrslu McKinseys. Það mun létta talsvert á sjúkrahúsunum en eins og fram hefur komið er mönnun stærsta áskorunin sem flest lönd standa frammi fyrir í heilbrigðisgeiranum og þar skiptir máli að vinnuumhverfið sé aðlaðandi og álagið ekki óhóflegt, ekki síst eftir þá gríðarlegu törn sem fylgdi, og fylgir því miður enn, Covid-19.

Einnig verður unnið að endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem er bæði tímabært og stórt verkefni eins og hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra kom inn á hér í dag. Ég bendi á að mesta útgjaldaaukningin á gildistíma þessarar fjármálaáætlunar er til félags-, húsnæðis- og tryggingamála, samtals ríflega 26 milljarðar í ár og til ársins 2027, sem svarar til tæplega 10% hækkunar að raunvirði. Mér þykir góður bragur á því og er það í anda þess félagslega réttlætis sem ég vil sjá frá stjórnvöldum.

Virðulegi forseti. Eftir að hafa glímt við Covid-19 og öll þau áhrif sem sú pest hefur haft þá horfum við upp á hina skelfilegu innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu, áhrif þess á íbúa og áhrif þess á heimshagkerfið. Það er sannarlega mikið áhyggjuefni og veldur því að enn á ný er óvissa um þróun efnahagsmála víða í heiminum og ekki síst í svona litlu hagkerfi eins og hjá okkur. Líklega verða áhrifin mun meiri en við gerum okkur grein fyrir akkúrat núna en við munum bregðast við þeim áhrifum sem íslenskt hagkerfi verður fyrir, eins og gert var í Covid-19, gerist þess þörf.

Verkefnið fram undan er að ná að nýju jafnvægi í ríkisfjármálum til að styðja við efnahagslegan stöðugleika og verja þann árangur sem náðst hefur. Vöxtur og velsæld er það leiðarljós sem ríkisstjórnin starfar eftir. Með þessari fjármálaáætlun erum við að tryggja áframhaldandi velsæld með því að verja árangur nýliðins kjörtímabils í styrkingu velferðarkerfanna og styðjum áfram við fjölbreyttar stoðir efnahagslífsins, ekki síst þær sem byggja á hugviti, eins og ég sagði áðan. Við höfum trú á íslensku samfélagi og með þeim aðgerðum sem þessi fjármálaáætlun felur í sér mun staða ríkissjóðs styrkjast, ekki síst með auknum umsvifum í hagkerfinu sem mun gera okkur kleift að draga úr skuldasöfnun. Markmiðið er að styðja við aukna velsæld til framtíðar fyrir fólkið í landinu.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þessa fyrri umræðu. Fram undan er hjá okkur í fjárlaganefnd að rýna í umsagnir hinna ýmsu aðila, heyra þeirra sjónarmið og leggja okkar mat á áætlunina í framhaldi af því.