152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofna og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég giska á að það sé út af því að þetta komi beint úr tilskipun, Evrópureglunum, sé fært beint yfir, það sé einhver skölun þarna í gangi eða eitthvað því um líkt, sem er áhugavert. Annað sem ég rek mig á þessu samhengi er í ákvæði til bráðabirgða, þar sem segir:

„Stjórn Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja skal eigi síðar en fyrir árslok 2022 færa 26,3 milljarða kr. úr innstæðudeild sjóðsins í skilasjóð.“

Þarna er sem sagt skilasjóðurinn með íslenskar krónur, og er mögulega að tryggja fyrirtæki sem eru að gera upp í evrum. Ef viðmiðin eru í evrum af því að fyrirtækin eru að gera upp í evrum þá er það kannski alveg eðlilegt. En þá er skilasjóðurinn með krónur til að tryggja fjármálavandræði, greiðsluvandræði, í evrum. Þá spyr maður: Af hverju er þá ekki ákveðið jafnvirði íslenskra króna í evrum sem þarf að vera í skilasjóði? Ef það snýst líka um hvenær fyrirtækin eru að fara að borga í hann aukalega og þess háttar? Kannski smámisræmi þarna í lögunum sem ég held að þurfi að strauja út og fá einhverjar betri útskýringar á. Og af hverju 26,3 milljarðar? Þetta er mjög líklega, af því að þetta er svona nákvæm tala, upp á hundruð milljóna króna, uppreiknað úr einhverri evrutölu, veit ekki hver skalinn er á því miðað við stærð hagkerfisins hérna eða eitthvað svoleiðis en ef það er einhver skölun á því þá þarf það líka að breytast á hverju ári, myndi maður ætla. Ef það væri verið að selja Íslandsbanka og fjármálakerfið blæs út af því að hann varð verðmætari, þarf þá skilasjóðurinn t.d. að vera stærri?