152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta er náttúrlega alveg hárrétt og við þekkjum líka að stundum er verið að þvæla öðrum óskyldum atriðum inn í mál sem gerir vinnuna enn flóknari fyrir t.d. fastanefndir þingsins og þingið. En svo er annað, ef við færum okkur enn framar í ferlinu, það er bara við lagasetninguna sjálfa á vettvangi Evrópuþingsins þar sem ýmsir hagsmunahópar eru með mjög virkar nærveru. Aðrar þjóðir, ekki síst Noregur gerir sig með gildandi þar þrátt fyrir að vera formlega í sömu stöðu og Ísland sem aðili að þessum málum í gegnum samninginn við Evrópska efnahagssvæðið, lætur til sín taka á þeim vettvangi og ég veit að þar hafa Norðmenn gjarnan áhrif á fyrri stigum. Hér hefur þetta verið rætt, þetta þykir kostnaðarsamt og þetta þykir jafnvel flókið og mannaflsfrekt. En ég velti því fyrir mér, og það væri gaman að heyra skoðun hv. þingmanns á því, hvort stundum væri ekki hægt að segja að við værum að spara aurinn og kasta krónunni í ljósi þess hvað tekur síðan við (Forseti hringir.) þegar við erum að fara í innleiðingarferli á málinu sem við höfum ekkert komið að, er þungt í vöfum (Forseti hringir.) og hefðum gjarnan viljað sjá einhvern veginn öðruvísi hefðum við haft færi á.