Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:12]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp hefur tekið miklum breytingum milli framlagninga. Stærsta breytingin áður en frumvarpið kom inn í þingið núna síðast er að halda þeirri heimild inni í lögunum að taka megi mál til efnismeðferðar þó svo að fólk hafi fengið vernd í öðru ríki. Þetta er ákvæði sem VG hefur staðið vörð um enda er mikilvægt að geta alltaf litið til einstaklingsbundinna aðstæðna og að enginn hópur sé gjörsamlega útilokaður frá því að geta fengið málsmeðferð. Fleiri breytingar hafa verið gerðar, svo sem að stórir hlutar fólks eru undanskildir niðurfellingu á þjónustu. Svo er mikilvægt ákvæði um að ávallt skuli framkvæma sérstakt hagsmunamat fyrir börn og að reglugerð um það til hvaða sjónarmiða eigi að líta sé sett af mennta- og barnamálaráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra.

Málið hefur síðan verið áfram til þinglegrar meðferðar hjá Alþingi og ég bendi á að eins og fram hefur komið hef ég kallað frumvarpið aftur inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. Meiri hluti nefndarinnar hefur unnið saman af heiðarleika. Ég vil þakka þeim samstarfið og þá sérstaklega formanni nefndarinnar sem hefur tekið vel í allar beiðnir um gesti og umræður.