Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt annað en að vekja athygli á tvískinnungi málflutnings ákveðinna þingmanna, t.d. Viðreisnar, þar sem þeir tala í aðra röndina fyrir inngöngu í Evrópusambandið, sem er þeirra hjartans mál, en á sama tíma úthúða þeir stefnu þess í flóttamannamálum. (Gripið fram í: Er ekki einu sinni hægt að fara með rétt mál?) (Forseti hringir.) Það sama á við um Samfylkinguna, sem segist vera eldrauð gegn þessu máli, en það veit svo sem enginn hvert þau stefna lengur í þessum málum frekar en öðrum. Svo er náttúrlega ekki hægt að skilja við þetta án þess að minnast á Pírata og þeirra málflutning hér í þingsal. (Gripið fram í: Þvílík lágkúra.) Þeir skilja nefnilega ekki skilaboðin í því að þingmenn nenna ekki einu sinni (Gripið fram í.) að hlusta á ræður þeirra í þingsal frekar en almenningur í landinu (Gripið fram í: Ég er ekki viss um það.) (Forseti hringir.) og þeir eiga að taka þessi skilaboð til sín.

Já, það verður svolítill hiti í þessu, en fyrst og fremst stendur eftir að það verður enginn afsláttur gefinn af skuldbindingum okkar gagnvart mannúðlegum sjónarmiðum og samningi Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn. Ég fagna þessum áfanga sem við erum að ná í dag, hann er mjög tímabær. Ég þakka kærlega meiri hluta nefndarinnar, alveg sérstaklega, fyrir góð og fagleg vinnubrögð. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Þau hafa staðið sig mjög vel að ná ákveðnum málamiðlunum í þeim ágreiningi og skoðanaskiptum (Forseti hringir.) sem áttu sér stað innan stjórnarflokkanna. Þannig erum við að sigla þessu mikilvæga máli í höfn í þágu lands og þjóðar (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og þeirra flóttamanna sem hingað koma á réttum forsendum.