Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:18]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mjög erfitt að koma á eftir þessu og svara þessu ekki efnislega en ég geymi það kannski fyrir seinni umferð. Ég er svo sem ekkert að segja neitt nýtt hérna. Þetta hefur allt komið fram í þeim 69 ræðum sem ég hef haldið um þetta agalega mál. Fyrir mér snýst þetta frumvarp ekki um mannréttindi flóttafólks heldur mannréttindi. Punktur. Við höfum ítrekað bent meiri hlutanum á að þetta lagafrumvarp mun ekki auka skilvirkni í málaflokknum heldur er líklegra að það muni skapa álag á félagslegu kerfin okkar og kosta ríkissjóð meiri pening. Við höfum ítrekað bent meiri hlutanum á áhyggjur sérfræðinga á borð við Rauða krossinn, Barnaheill, Mannréttindastofnun HÍ og svo mætti lengi telja. Meiri hlutinn ætlar að hunsa þær áhyggjur um að mögulega fari ákvæði þessa lagabálks í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og lögfesta þessi lagaákvæði án þess að gera úttekt á því hvort svo sé. Þetta er ekki bara mannvonska heldur eru þetta skítleg vinnubrögð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)