Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Aldrei hafa fleiri neyðst til að yfirgefa heimili sín og leggja á flótta. Á liðnu ári fjölgaði flóttafólki um tíu milljónir. Það geisar stríð í Úkraínu og neyð vegna loftslagsbreytinga er í uppsiglingu. Við þessar aðstæður telur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur rétt að samþykkja frumvarp sem mun ganga gróflega á réttindi fólks sem hingað leitar í neyð eftir skjóli. Nú finnst hv. þingmönnum VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, undir forystu hæstv. dómsmálaráðherra, kominn tími til að skapa aðstæður svo að mögulegt sé að vísa flóttafólki á götuna á Íslandi og ganga á réttindi barna. Þetta eru ekki ýkjur. Þetta er blákaldur raunveruleikinn sem flóttafólk á Íslandi mun standa frammi fyrir verði þetta frumvarp samþykkt. Við í Samfylkingunni höfnum þessu miskunnarleysi og greiðum atkvæði gegn frumvarpinu.