Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Hér er lagt til að fella brott eitt ógeðslegasta ákvæði þessa frumvarps, ákvæði sem snýst um að taka fólk sem hefur sótt um vernd og svipta það framfærslu, húsnæði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Við vorum loksins að fá það fram hjá ráðherranum í dag að hann ætlaði bara að taka sénsinn á að sveitarfélögin gætu reddað þessu liði, sveitarfélögin gætu tekið upp slakann þar sem ómannúðleg útlendingastefna ríkisstjórnarinnar hendir fólki á götuna. Það er náttúrlega ekki tilgangurinn með þessu ákvæði. Tilgangurinn með þessu ákvæði er að svelta fólk til hlýðni þannig að það drulli sér úr landi. Það er það sem ríkisstjórnin er að segja með þessu ákvæði. Það má svelta flóttafólk til hlýðni til að ríkisstjórnin þurfi ekki að eiga við það lengur. Þetta er hin meinta mannúð. Þetta er hinn meinti stuðningur við fólk á flótta. Í þessu ákvæði birtist ein versta mannvonskan í frumvarpinu (Forseti hringir.) og það er ótrúlegt að ekki sé meiri hluti hér á þingi til að fella þetta hryllingsákvæði úr frumvarpinu.