Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða breytingartillögu frá meiri hlutanum sem felur í sér að skýra greinina enn frekar., þ.e. hvernig og hvenær tekin verður ívilnandi ákvörðun, til handa fólki sem hefur fengið synjun um vernd hér á landi, um að það fái að búa áfram í úrræði sem við veitum. Eins og ég mun kannski fara yfir hér á eftir eru undanþáguákvæðin mörg en m.a. að viðkomandi sé samstarfsfús við lögregluna. Í þessum tilfellum er um að ræða aðila sem hafa fengið synjun og ber þar af leiðandi að víkja brott af landinu. Þar með er stoðdeild ríkislögreglustjóra komin með það hlutverk að sjá til þess að viðkomandi yfirgefi landið. Í sumum tilfellum kann það að vera flókið og erfitt að verða sér úti um ferðapappíra en sýni einstaklingurinn samstarfsvilja getur hann enn búið í þeim úrræðum og fengið þá þjónustu sem veitt er. Til að hnykkja á því hver er bestur til þess að vita hvort viðkomandi sýni samstarfsvilja þá er það lögreglan þar sem þessi hluti er á hennar ábyrgðarsviði.