Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Manstu eftir palestínsku flóttamönnum sem ríkisstjórnin henti út á götuna fyrir tveimur árum, sem kærunefnd útlendingamála komst síðan að að hefði verið ólögmætt vegna þess að lögin leyfa einfaldlega ekki að refsa fólki í kerfinu okkar með því að svipta það fæðispeningum, húsnæði og heilbrigðisþjónustu, henda því út á götuna, á guð og gaddinn? Og hæstv. ráðherra, nei, Félagsþjónusta sveitarfélaga greiddi það ekki. Þeir voru upp á náð og miskunn vina og kunningja komnir. Það var ekki íslenska ríkinu eða sveitarfélögum að þakka að þeir komust í gegnum þetta.

Þetta ákvæði snýst um þessa menn. Þetta ákvæði snýst um það að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill ekki fá skammir fyrir að setja fólk í þessa stöðu aftur. Ríkisstjórnin vill fá heimild til þess. Hér rétt á undan mér var núverandi og fyrrverandi heilbrigðisráðherra að samþykkja þessa heimild sem leyfir t.d. að svipta palestínsku flóttamennina heilbrigðisþjónustu. (Forseti hringir.) Ég segi nei og skil ekki að nokkrum einasta þingmanni með snefil af mannúð detti annað í hug.