Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Forseti. Ég hef farið yfir það nokkrum sinnum í þessum ræðustól að þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd heimsótti Danmörku og Noreg þá var eitt af því fyrsta sem þingmenn þar sögðu: Við höfum virka endursendingarstefnu. Ég veit að það kann að hljóma kaldranalegt en það er hluti af umgjörð utan um útlendingamál. Svo öllum sé það ljóst þá erum við hér að fjalla um það að þegar aðilar koma til Íslands og segjast óska eftir hæli, óska eftir vernd, þá fara þeir í úrræði á vegum ríkisins. Þeir búa þar og fá fæðispeninga, fá læknaþjónustu og annað á okkar vegum. Þegar þeir eru búnir að fá nei hjá Útlendingastofnun, nei hjá kærunefnd útlendingamála, þá ber þeim að víkja burt vegna þess að þeir eru ekki í þörf fyrir vernd samkvæmt íslenskum lögum og samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Hversu lengi ættu íslenskir skattgreiðendur að greiða fyrir þetta fólk til að búa hér á landi? Við segjum: Fólk hefur 30 daga til að víkja brott. Auk þess er reyndar fjöldi undanþáguákvæða fyrir börn, mikið fatlaða, mikið veika, barnshafandi konur og ýmislegt þar að lútandi. Það að geta sagt hér að það séu einhvern veginn stjórnarskrárvarin mannréttindi að íslenskir skattgreiðendur (Forseti hringir.) greiði fyrir fólk sem er hér í ólögmætri dvöl vegna þess að það uppfyllir ekki skilyrði um að fá alþjóðlega vernd.

(Forseti (BÁ): Þingmaðurinn segir?)Þingmaðurinn segir já.