Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:07]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni höfum lagt til að þetta ákvæði allt verði fellt brott, enda algerlega óboðlegt að lögfest yrði ákvæði sem gengur ekki upp hvernig sem litið er á það. B-liðurinn kveður á um heimild íslenska ríkisins til að synja fólki á flótta um efnislega meðferð umsóknar sinnar á þeim grundvelli að það hafi tengsl við eitthvert annað ríki. Þetta getur verið ríki sem viðkomandi hefur aldrei komið til. Þetta getur verið ríki sem viðkomandi hefur ekki dvalarleyfi í. Þetta getur verið ríki sem ekki er aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerði alvarlegar athugasemdir við þetta lagaákvæði. Ef á að lögfesta þetta ákvæði, hvernig ætlar íslenska ríkið að tryggja að viðtökuríkið sé aðili að flóttamannasamningnum og að fólk verði ekki sent í ómannúðlegar aðstæður? Þetta ákvæði ber vott um vanþekkingu og skilningsleysi á stöðu flóttafólks og er í engu samræmi við raunveruleikann í stöðu flóttafólks í heiminum. Ég skil eiginlega ekki hvers vegna verið er að bera á borð þetta ákvæði fyrir þingmenn og fyrir þingsalinn. Þetta er óframkvæmanlegt lagaákvæði. Það þjónar engum tilgangi öðrum en að búa til óreiðu, óvissu og kaos inni í stjórnkerfinu. Ég segi nei. (Gripið fram í.)