Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Með þessu ákvæði er verið að taka ákveðna tegund flóttamanna út fyrir sviga í fjölskyldusameiningarákvæðum laganna. Þegar ráðuneytið var spurt: Af hverju í ósköpunum eruð þið að þessu? var svarið: Æ, bara, þau þurfa þetta ekkert. Þau geta bara komið í gegnum einhverja aðra leið. Við erum með áritunarfrelsi, þau geta komið. Það er sem sagt þannig samkvæmt núgildandi reglum að undir þetta fjölskyldusameiningarákvæði heyra allir flóttamenn samkvæmt kaflanum, þ.e. fólk sem kemur hérna upp á eigin spýtur, kvótaflóttamenn eða fólk sem flýr fjöldaflótta og fólk með viðbótarvernd. Samkvæmt þessu eru kvótaflóttamenn, fólk sem kemur í boði ríkisstjórnarinnar, og fólk sem flýr á grundvelli fjöldaflótta líkt og Úkraínumenn, undanskilið þessu ákvæði. Hvers vegna? Það veit enginn. Hér er enn og aftur verið að skerða réttindi fólks á flótta af engri sjáanlegri ástæðu; ekki fyrir skilvirkni, ekki fyrir straumlínulögun kerfisins, ekki til að gera neitt og þetta leysir engin vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Ég segi nei.