Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Hér er ákvæði sem ýmsir umsagnaraðilar hafa varað við. Nú síðast fengum við umsögn frá Samtökunum '78 sem bentu réttilega á að þetta ákvæði væri líklegast til að koma umfram allt niður á hinsegin kvótaflóttafólki, fólki sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að bjóða til landsins vegna þess að þau eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og ofbeldi í heimalandinu. Það er góð ráðstöfun hjá stjórnvöldum. Þar hafa íslensk stjórnvöld árum saman breytt rétt en núna leggur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að ef þetta fólk síðan uppljóstrar um að það eigi maka í heimalandinu hafi hann ekki sjálfkrafa rétt til fjölskyldusameiningar, makinn megi bara vera enn þá í aðstæðunum þar sem ofsóknir eru daglegt brauð. Þetta er sama ríkisstjórn og leggur þetta til með annarri hendinni en réttir með hinni hendinni þjónustusamning til Samtakanna '78 um að hjálpa hinsegin flóttafólki hér á landi. Hræsnin, tvískinnungurinn, bjánaskapurinn er svo stjarnfræðilegur. (Forseti hringir.) Þetta er óskiljanlegt. Þetta beinist gegn örfáum einstaklingum, hinsegin flóttafólki (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin þykist standa með en sýnir með því að samþykkja þessa breytingu að er annars flokks.

(Forseti (BÁ): Þingmaður segir?)

Nei.