Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég ætla bara að mála upp smá mynd, nákvæmlega sama dæmið og ég lagði fyrir ráðuneytið þegar við vorum að reyna að skilja þetta ákvæði til fulls og vildum vera viss um að við værum alveg örugglega ekki að misskilja það. Gefum okkur að hinsegin einstaklingur fái vernd á Íslandi í gegnum kvótaflóttamannakerfið, í gegnum Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ekki búinn að gefa það upp neins staðar í heimalandi að viðkomandi eigi maka eða tilvonandi maka vegna þess að það myndi setja viðkomandi í hættu. Á leiðinni til Íslands hittir viðkomandi þennan maka í einhverju landi á leiðinni, Þýskalandi, af því að þar mega þau giftast, þau máttu ekki giftast í heimalandinu, og þau giftast. Þetta ákvæði, ef þetta verður að lögum þá á makinn ekki rétt á þessari fjölskyldusameiningu þarna. Ég spyr bara líkt og hv. þm. Eva Sjöfn Helgadóttir gerði hérna áðan: Hver er tilgangurinn? Er þetta skilvirkni? Ég segi nei.