Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

umferðarlög.

589. mál
[16:52]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fínar spurningar. Varðandi það að leggja bílum eða öðrum farartækjum á stíga þá eru slík ákvæði í núverandi umferðarlögum og það þarf kannski bara að framfylgja þeim. Varðandi hlutlæga matið um af hverju það er hjá smáfarartækjum en ekki reiðhjólum og hestum þá er þessi tillaga komin úr þessum starfshópi. Þegar rannsóknin var gerð, og starfshópurinn byggði mjög mikið á þeim gögnum, þá kom í ljós að 40% af þeim slysum sem voru á 18 ára og eldri voru vegna ölvunaraksturs. Það er litið svo á að þarna sé líklegra að menn séu að reyna að nýta sér þetta heldur en að ferðast um á reiðhjóli eða hestum í slíku ástandi. Þetta er tillaga til að auðvelda í raun og veru eftirlit með þessu og kannski setja einhverjar reglur um það. Þetta er eitt af því sem er auðvitað stórhættulegt og ég held að mjög margir geri sér grein fyrir því að menn taka oft ekki yfirvegaða ákvörðun þegar þeir ákveða að fara heim eftir gott kvöld á slíku hjóli, kannski vegna þess að þeir komast ekki heim á annan hátt, sem við erum reyndar að vinna í líka. Ég vildi gjarnan hafa lengri tíma til að fara í svarið við fyrstu spurningu hv. þingmanns um hvort það séu til einhver gögn, rannsóknir um heildarhagsmuni barna. En þá vísa ég fyrst og fremst til þess að það birtist í Læknablaðinu þessi skýrsla um rafskútuslys á höfuðborgarsvæðinu þar sem langflest slysanna, eða 45%, voru á börnum yngri en 18 ára (Forseti hringir.) og mjög stór hluti þeirra börn yngri en tíu ára og oft er um alvarleg slys að ræða.