154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

viðbrögð á Norðurlöndum við hælisleitendum frá Gaza.

[15:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil einnig nota það tækifæri sem ég hef hér til að biðjast afsökunar á því ef ég hef ekki verið nógu nákvæm í orðavali mínu hér áður í sambandi við fjölskyldusameiningar. Ég vil líka benda á það að upplýsingar berast hratt og nýjar upplýsingar eru að koma á hverjum degi. En það er ljóst að lagaumhverfi og framkvæmd útlendingamála er ólík hér á landi heldur en á Norðurlöndunum og það gerir það að verkum að heildarfjöldi dvalarleyfishafa sem Norðurlöndin hafa sótt á Gaza er u.þ.b. jafn mikill og fjöldi þeirra sem hafa dvalarleyfi hér á landi og stödd eru á Gaza, þ.e. rúmlega 100 dvalarleyfishafar. Norðurlöndin hafa sótt um 850 manns í heildina en heildarfjöldinn sem Finnland og Danmörk samanlagt hafa sótt er vel innan við 50 manns. Þar af eru fáir eða engir dvalarleyfishafar. Þegar litið er til Svíþjóðar og Noregs hafa þau lönd sótt mun fleiri. Ef miðað er við íbúafjölda ríkjanna þar sem Svíþjóð er um tuttugu og sexfalt fjölmennara heldur en Ísland þá jafnast sá fjöldi á við það að Ísland hefði sótt samtals um 20 manns og þar af um tvo til þrjá dvalarleyfishafa. Hafa ber í huga að framkvæmd fjölskyldusameiningar á Norðurlöndunum er mjög ólík því sem gerist á Íslandi sem gerir það að verkum að það hefur verið næsta ómögulegt að sækja um fjölskyldusameiningu á Norðurlöndunum eftir að átökin hófust. Hérlendis hafa aðstandendur getað sótt um dvalarleyfi fyrir hönd sinna fjölskyldumeðlima en framkvæmdin er önnur, eins og ég sagði, á hinum Norðurlöndunum þar sem umsækjendur þurfa að mæta í sendiskrifstofur viðkomandi ríkja til að sækja um.