131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

414. mál
[13:16]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra ákaflega skýrt og afdráttarlaust svar. Þar kemur fram að 954 íbúar á hjúkrunarheimilum deili herbergjum með öðrum en mökum sínum. Það er að sjálfsögðu allt of há tala og allt of langt í land. Þarna er að mínu viti gengið gegn sjálfstæði, virðingu og sjálfræði eldra fólks, gengið gegn mannréttindum þeirra sem þar búa og við eigum að stefna að því, eins og hæstv. ráðherra sagði, að svo verði ekki. Ég held að lagaboð komi vel til greina. Ég held að það komi vel til greina að setja lög sem banna að aldraðir deili herbergi með öðrum á dvalar- eða hjúkrunarheimilum sé ekki um maka eða sambýling að ræða. Málið er svo mikilvægt og alvarlegt að mínu viti og það er svo langt í land eins og uppbygging hjúkrunarheimila víða um land færir okkur heim sanninn um.

Það gengur mjög treglega að bæta úr ákaflega brýnni þörf margra aldraðra fyrir slík úrræði, þó svo að nútíminn sé að mínu mati að sjálfsögðu sá að dvalarheimilisformið sé á undanhaldi og að við eigum að byggja upp öfluga heimaþjónustu með þjónustuíbúðum, þjónustukjörnum eða sambýlum einhvers konar og að hjúkrunarheimilin taki við þegar heilsu fólks hefur hrakað það mikið að ekki er hægt að sinna þjónustunni heima. Þannig á ferlið að vera í stærstum dráttum þó svo að dvalarheimili verði alltaf meðfram. Við verðum að bæta verulega úr þarna og hraða mjög för þannig að þetta verði óþekkt eins og víðast er annars staðar á Norðurlöndum þar sem, eftir mínum upplýsingum, er nánast óþekkt að aldraðir á dvalar- eða hjúkrunarheimilum deili herbergi með öðrum en maka eða sambýlingi hafi þeir ekki sérstaklega óskað eftir því.

Ég ítreka að lagaboð kemur þarna að mínu viti mjög til greina. Þetta er brýnn þáttur til að bæta úr málefnum aldraðra og við verðum að taka fast á því máli og setja það í forgang.