131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

414. mál
[13:18]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á efninu sem er mjög brýnt. Við göngum í gegnum breytingatíma hvað þetta varðar núna. Auðvitað hefur gengið of seint að bæta úr þessu, m.a. vegna þess að það var fremur regla en undantekning að margbýli væri á öldrunarstofnunum fram undir þetta. Við höfum gert hvort tveggja í senn, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, að byggja við og auka rými en það hefur að hluta til ekki farið til að stytta biðlistana heldur til þess að koma upp einbýlum á stofnunum.

Það sem er fram undan er að koma í gang stóru öldrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu til að stytta þá biðlista sem þar eru og einnig til að færa búsetumálin í það horf sem við viljum hafa þau. Ég held að okkur hv. fyrirspyrjanda greini ekkert á um markmiðið. Við erum alveg sammála um það. Eigi að síður held ég að lagasetning í þessu efni miðað við það sem við búum við yrði til þess að við ættum í erfiðleikum með að uppfylla þá lagaskyldu í augnablikinu þó vissulega sé áríðandi að bæta ástandið. Það er verið að leggja fram verulegt fjármagn til þess. Við erum að færa okkur úr gömlum tíma yfir í nútímann og mæta eftirspurn eftir rými fyrir æ fleiri aldraða.