131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Mismunandi þarfir drengja og stúlkna í grunnskólum.

430. mál
[14:56]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Þingsályktunin sem hér er um að ræða hljóðaði á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd fagfólks í uppeldis- og kennslumálum sem geri tillögur um hvaða uppeldis- og kennsluaðferðum skuli beitt í grunnskólum til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna, en upplýsingar um misvægi í sérfræðiþjónustu, athygli kennara og námsárangri benda til að úrbóta sé þörf. Jafnframt geri nefndin tillögur um viðeigandi breytingar á kennaranámi.“

Þegar umrædd þingsályktun var samþykkt á sínum tíma var nefnd, skipuð af þáverandi menntamálaráðherra, þegar að störfum sem hafði verið falið að gera tillögur um stefnumótun í jafnréttisfræðslu í skólum í tengslum við endurskoðun aðalnámskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla. Sú nefnd var skipuð árið 1997 og átti enn fremur að gera tillögur á sviði menntamála varðandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Í þeirri nefnd sátu m.a. Inga Dóra Sigfúsdóttir, sem var formaður, fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hinu íslenska kennarafélagi og einnig frá Kennaraháskóla Íslands.

Verkefni þessarar nefndar við námskrárgerðina voru skilgreind þannig að hún legði fram drög að umfjöllun um jafnrétti og jafnréttisfræðslu fyrir almenna hluta námskránna. Nefndin skilaði af sér greinargerð og tillögum árið 1999 og fengu þær ítarlega kynningu á sínum tíma, m.a. með bæklingi um kynjamun í skólastarfi. Starf nefndarinnar hefur orðið grundvöllur mikillar umræðu sem enn er í gangi. Má nefna sem dæmi að nú síðar í mánuðinum verður haldin stór ráðstefna um drengjamenningu í grunnskólum.

Þegar þingsályktunin frá árinu 1998, sem hér er spurt um, barst menntamálaráðherra var rætt um það í ráðuneytinu hvort umfjöllun um hana á sínum tíma samrýmdist umboði jafnréttisnefndarinnar. Niðurstaðan var sú að svo væri ekki og því var ákveðið að skipa aðra nefnd á grundvelli þessarar þingsályktunar til að gera tillögur um uppeldis- og kennslufræði til að koma til móts við hinar mismunandi námsþarfir drengja og stúlkna og viðeigandi breytingar á kennaramenntun. Sú nefnd fylgdist með gerð aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla sem kom út 1999 og ræddi við ýmsa aðila í menntakerfinu um starfshætti sem æskilegast væri að bæta til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna og hvatti sérstaklega til aðgerða í þeim efnum.

Nefndin lauk síðan störfum án þess að skila formlegum tillögum um aðgerðir en í endurskoðun námskrár er sérstaklega tekið tillit til álits nefndarinnar í þeim efnum og má í rauninni segja að álit nefndarinnar hafi síðan endurómað við gerð námskrárinnar árið 1999.

Ein meginástæða þess að nefndin skilaði ekki formlegum tillögum þótt hún hafi gefið álit var sú að fljótlega kom í ljós að það var mjög erfitt að byggja starfið á upplýsingum sem lágu þá fyrir og rannsóknir höfðu verið gerðar. Það má í raun segja að staðan varðandi námsárangur og líðan drengja og stúlkna í skólum hafi legið tiltölulega ljós fyrir. Strákum gekk almennt verr í skóla en stúlkum og þeim leið ekki eins vel. Hins vegar hefði þurft mun öflugri og víðtækari rannsóknagrunn og sammæltust fagaðilar sem komu að þessu um að það þyrfti mun öflugri og víðtækari rannsóknagrunn en var til staðar á þeim tíma til að geta dregið marktækar ályktanir til að geta brugðist við. Það var t.d. ekki hægt að segja til um það með afgerandi hætti hvort mismunandi líðan og árangur drengja og stúlkna mætti rekja til skólakerfisins sem slíks eða hvort aðstæður og þættir utan skólakerfisins réðu þar mestu um. Því var talið á þessum tíma að óvarlegt væri að ráðast t.d. í breytingar á kennaramenntun án þess að bak við slíkar umfangsmiklar breytingar á kennaramenntuninni lægju þá fyrir varðandi niðurstöður rannsókna.

Það er líka rétt að benda á að þetta hefur mjög mikið þróast, það er ekki bara að þetta sé komið með fullum og afgerandi hætti inn í námskrárnar. Skólarnir eru mjög meðvitaðir um að það eigi að taka á þessu og það er vel. En þess verður líka sérstaklega að geta að ég hef til að mynda haft spurnir af því að í hinum nýja sameinaða háskóla sem nú er verið að stofna er stefnt að því að stunda umfangsmiklar rannsóknir á kynjasviði. Þar liggur fyrir nú þegar stór gagnagrunnur um kynjamun í skólastarfi og munu kennarar og nemendur þess skóla halda þessum rannsóknum áfram.

Samhliða rannsóknunum verða líka þróaðar aðferðir innan skólans sem hafa einmitt það að markmiði að koma sérstaklega til móts við þarfir drengja og reynt að skilgreina nákvæmlega hvað búi að baki mismunandi námsþörfum. Þau gögn lágu ekki fyrir á sínum tíma.

Síðan má geta þess að í ljósi m.a. PISA-niðurstaðna er Námsmatsstofnun sérstaklega að fara yfir þær niðurstöður sem komu svo skýrlega í ljós, þ.e. mismunandi niðurstöður í stærðfræði á milli drengja og stúlkna. Sá munur er ekki eingöngu eftir kyni heldur ekki síður eftir landsvæðum. Það er athugunarefni.