131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Smíði nýs varðskips.

368. mál
[15:39]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og vil leggja aðeins orð í belg. Það er nauðsynlegt að endurnýja skipakost Landhelgisgæslunnar. Ég held að allir séu sammála um það sem hafa aðeins kynnt sér málið, og þótt ekki hafi nema fylgst með björgunaraðgerðum varðskipanna Ægis og Týs fyrir nokkrum dögum. Þó að þau séu með sterkar og góðar vélar eru þau gömul, en sérstaklega eru þau of lítil miðað við það hvað fraktskipin hafa stækkað. Það er erfiðleikum bundið að vera í björgunaraðgerðum með svo stór skip.

Hvort haldið verður áfram þeim hugmyndum sem uppi hafa verið um að smíða sérstakt varðskip miðað við íslenskar aðstæður eða hvort leitað verður að skipi í þessum tilgangi skal ég ekkert segja um. Það sem skiptir máli er að þeir sem vinna við Landhelgisgæsluna séu þá fullsáttir um þá lausn sem verður valin.