132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[17:01]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við munum að sjálfsögðu kalla til fulltrúa eldri borgara og þeirra félagasamtaka sem þetta mál varðar, í heilbrigðis- og trygginganefnd, heyra þeirra viðhorf og taka tilliti til þeirra. Varðandi þjónustuna við langveiku börnin, sem ég gerði hér að umtalsefni, sé ég hér í viðtali við hæstv. félagsmálaráðherra að hann hyggst flytja sjóð, sem hann ætlar að fara að setja á laggirnar fyrir langveik börn, í Húnaþing, á sama tíma og þjónustan við foreldra langveikra er nú þegar á fleiri en einum stað. Auðvitað ætti öll þessi þjónusta að vera hjá Tryggingastofnun ríkisins þar sem fólk fær yfirleitt sinn stuðning. Mér finnst það mjög sérkennilegt að á sama tíma og hæstv. heilbrigðisráðherra er hér að sameina þjónustu fyrir þessa tvo hópa á einum stað, hópa sem eru reyndar mjög ólíkir, að þá eigi að færa stuðning við foreldra langveikra barna á enn fleiri staði.

Ég vonast til, herra forseti, að það verði ekki að veruleika. Það er mjög mikilvægt að sú þjónusta sé öll á einni hendi því þarna er verið að þjóna hópi sem hefur nóg á sinni könnu, þó að hann þurfi ekki að eltast við þjónustuna á marga staði eins og við þekkjum. Ég vona að þessi áform hæstv. félagsmálaráðherra hvað varðar langveiku börnin verði ekki að veruleika.