132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Djúpborun á Íslandi.

61. mál
[18:41]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ekki sé hægt að vera á móti stóriðju af einhvers konar trúarlegum ástæðum. Sú tíð kann að renna upp að hægt verði að færa sönnur á það, jafnvel gagnvart hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að stóriðju væri hægt að reka án þess að af henni hlytist mengun. Það er vel hugsanlegt að í framtíðinni þróist einhver slík tækni. Við höfum séð að tækniframfarir hafa dregið verulega úr margvíslegri mengun í hvers konar iðnaði. Ég nefni þetta sérstaklega til þess að undirstrika og draga fram að við sjáum ekki inn í framtíðina og það er hugsanlegt að við finnum not fyrir orku til mikilla framfara sem við þekkjum ekki endilega í dag.

Ég kom hérna til þess að ræða sérstaklega þá nauðsyn sem okkur ber til þess að afla orku til að geta breytt eða horfið frá notkun okkar á eldsneyti af jarðefnatoga í eins ríkum mæli og hægt er. Reyndar nefndi hv. þingmaður þann möguleika undir lok ræðu sinnar. Gríðarlega orku þarf til þess að standa undir framleiðslu á vetni í framtíðinni til þess að breyta t.d. öllum fiskiskipaflota okkar í vetnisknúna flota.

Ég spyr hv. þingmann: Mælir nokkuð móti því, ef Íslendingar vegna sérstakrar jarðfræði landsins ná tökum á því að vinna með þessum hætti mikla orku úr iðrum jarðar, að við notum hana t.d. til þess að framleiða vetni sem við flytjum úr landi? Við eigum í höggi við alþjóðlegt vandamál sem er mengun og loftslagsbreytingar. Ég held að við getum ekki leyft okkur að skilgreina eitthvað sem sjálfbæra þróun ef það er einungis þróun sem miðast við Ísland. Þannig skildi ég hv. þingmann. Ég tel að okkur beri að leggja af mörkum alþjóðlega með öllum þeim hætti sem við getum. Þess vegna finnst mér sú leið sem hér er verið að ræða brilljant. Hún skapar möguleika. Við sjáum þá kannski ekki alla fyrir. En við vitum hins vegar að alltaf verður þörf fyrir orku, sérstaklega (Forseti hringir.) orku sem er framleidd án þess að af henni hljótist mikil röskun á náttúrunni.