133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[16:35]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka upp þessa umræðu hér. Hún er að stórum hluta nauðsynleg. Eitt af því sem að sjálfsögðu heyrir upp á núverandi ríkisstjórn er að hafa ekki létt leyndinni fyrr. Það hefði t.d. verið hægt að gera það í upphafi þessa kjörtímabils fyrir þremur árum, þar af leiðandi áður en herinn ákvað endanlega að fara og áður en gerðir voru hér nýir samningar, svokallaðir skilasamningar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur farið mjög vel yfir söguna. Það sem mig langar að vekja athygli á og koma með spurningar um, herra forseti, er þessi nýi skilasamningur sem var gerður 29. september. Sá samningur vekur upp ýmsar spurningar og maður veltir líka fyrir sér hvort kannski hangi einhverjir aðrir samningar þar í, einhverjir viðaukar sem við höfum ekki fengið að sjá. Í þessum samningi sem er á ensku segir m.a. í 4. gr., með leyfi forseta:

„Iceland and the United States shall jointly recommend to NATO that Iceland assume host nation responsibility for all NATO-funded facilities in Iceland as soon as possible after the return of agreed areas.“

Ég er að velta fyrir mér, herra forseti, hvað felist nákvæmlega í þessu ákvæði. Hvaða verk eru það sem Íslendingar eru að taka hér að sér? Hverjir koma til með að sinna þeim? Ef ég skil þetta rétt er hér um hernaðarverk að ræða, og eru það kannski einhverjir sérstakir íslenskir hermenn? Er verið að þjálfa einhvers staðar hermenn til þess? Vonandi eru skýringar á þessu öllu, herra forseti.

Í sömu grein kemur jafnframt fram, með leyfi forseta: „... that Iceland assume user nation responsibility …“

Aftur spyr ég: Hvaða ákvæði eru þetta? Hvaða notendur er hér verið að tala um nákvæmlega? Hvaða þjóðir eru þetta? Hvað erum við að kalla yfir okkur með þessum samningi?

Ég hef ekki fengið aðgang að íslenskri þýðingu á þessum samningi en það er oft þannig, herra forseti, að þegar maður ber saman íslenska þýðingu og enskan texta er ekki alltaf rétt með farið þannig að ég legg til að menn fari vandlega yfir upprunalega textann.

Áfram segir í 4. gr. í þessum skilasamningi:

„Iceland shall accept all responsibility relating to use, operation, preservation and maintenance.“

Enn spyr ég, herra forseti: Hvað er það sem Ísland hefur tekið að sér að starfrækja? Á að verja með vopnum öll hernaðarmannvirki á Keflavíkurflugvelli? Hverjir munu þá sjá um það? Hvaða stofnun er það? Er verið að búa til einhverja nýja stofnun? Kannski hvílir einhver leynd yfir henni, ég veit það ekki. Ég bara spyr. Ég hef ekki séð, herra forseti, neitt um þetta í t.d. fjárlögum eða fjáraukalögum. Síðan segir hér áfram í 5. gr., með leyfi forseta:

„The United States shall retain the communication facility at Grindavík as an agreed area and be responsible for the continued maintenance and operation of the facility.“

Ég spyr eftir að hafa lesið þetta á frábærri ensku, herra forseti: Er herinn hérna enn þá? Um hverja er verið að tala þarna? Er eitthvað eftir af heraflanum þarna við Grindavík? Hverjir eiga að sinna þessu? Ég hélt að allur herinn hefði farið héðan í lok september. Svo virðist ekki vera. Ég spyr, herra forseti: Hvað erum við að kalla yfir okkur með þessum nýja skilasamningi? Mér finnst þetta ekki nógu skýrt en væntanlega hefur hæstv. utanríkisráðherra skýringar á reiðum höndum eða þá að menn verða kallaðir fyrir utanríkismálanefnd til að fara yfir.

Síðan kannski rétt í lokin af því að ég vil halda mig meira við nútímann og sérstaklega þennan samning þar sem ég hef leitað eftir nokkrum svörum — nú hefur undanfarið verið talað um að gerðir hafi verið samningar við grannþjóðir okkar, Norðmenn og Dani, varðandi varnir landsins og ég velti fyrir mér á hvaða stig það sé komið. Er það rétt sem menn geta sér til um, að Danir og Norðmenn séu fyrst og fremst að hugsa um sjálfa sig og hvort þá standi til að sett verði upp flotastöð fyrir Norðmenn í Hvalfirði?

Þetta hefur verið svolítið í umræðunni og ég velti fyrir mér hvort þetta sé skilyrðið því væntanlega eru Norðmenn og Danir ekki að hugsa um Íslendinga fyrst og fremst. Þeir eru að sjálfsögðu að hugsa um það, herra forseti, að vernda olíuauðlindir sínar sem eru á hafi úti.