135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

yfirlýsing ráðherra.

[14:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli Alþingis á því að þessi umræða fer fram samkvæmt 45. gr. þingskapa þar sem kveðið er á um hvernig haga skuli umræðu ef ráðherrar í ríkisstjórn gefa skýrslur hvort sem þær eru skriflegar eða munnlegar. Í hvoru tilvikinu um sig skal fara eftir þingskapalögum um tímalengd og aðra málsmeðferð. Hins vegar er hægt að semja um frávik frá því sem og var gert. Þingflokksformenn náðu samkomulagi við forseta Alþingis um tímalengd umræðunnar, um að hæstv. forsætisráðherra mundi tala í 15 mínútur og fulltrúar annarra þingflokka í 8 mínútur hver. En hvað varðar röðun á mælendaskrá gegnir allt öðru máli. Þar hefur hæstv. forseti greinilega tekið sér það bessaleyfi að láta fulltrúa ríkisstjórnarinnar, annars vegar formann Sjálfstæðisflokksins og hins vegar formann Samfylkingarinnar, hafa fyrsta og síðasta orðið í þessari umræðu. (Forseti hringir.) Er það með ráðum gert? Ég vil fá skýringu hæstv. forseta þingsins á því.