135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

póstþjónusta í dreifbýli.

[14:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Varðandi háhraðatenginguna þá minnir mig að það hafi verið loforð síðustu ríkisstjórnar að hún ætti að vera komin á fyrir um ári síðan. Við það hefur ekki verið staðið, það er eitt af því sem hefur verið svikið.

En góð póstþjónusta skiptir máli engu að síður. Grunnpóstþjónusta skiptir máli fyrir samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu um allt land. Þau loforð og fyrirheit sem voru gefin með fimm daga póstþjónustu um allt land eru bundin í lögum. Ég get vitnað til laganna. Ég get vitnað til orða þáverandi samgönguráðherra og ég get vitnað til fyrrverandi þingmanns og þáverandi framsögumanns samgöngunefndar, hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, um að póstur skuli borinn út alla virka daga um allt land nema náttúruhamfarir, eins og veður, hamli.

Þetta er því bundið í lögum og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að ganga eftir þessu hjá Íslandspósti og athuga hvort þarna sé verið að brjóta jafnræðisregluna, brjóta lögin um póstþjónustu og brjóta þau fyrirheit sem gefin hafa verið um póstþjónustu í landinu. Ég skora á hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra að ganga eftir þessu.