138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta hefur náð einhvers konar hámarki þegar hv. stjórnarþingmenn koma hér og skammast í erlendri lögfræðistofu yfir því að hún sendi hv. fjárlaganefnd umbeðnar upplýsingar. Þetta er enn einn skrípavinkillinn á þessu máli.

Svo koma hv. stjórnarþingmenn hérna fullir vandlætingar og húðskamma lögfræðistofuna fyrir að hafa gert það sem þeir báðu um. Virðulegi forseti. Ef það er einhvern tímann tími til þess að draga andann djúpt og menn hugsi málið aðeins, setjist niður og fresti nú þessu máli eins og það stendur þessa stundina, er það núna. Það er enginn bragur á þessu, við vitum það öll. Að ganga frá málinu án þess að allar upplýsingar liggi fyrir, (Forseti hringir.) án þess að þingmenn hafi fengið að kynna sér upplýsingar (Forseti hringir.) í þessu gríðarstóra máli, (Forseti hringir.) er fyrir neðan allar hellur.