138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum í þeim sporum núna að hrökkva eða stökkva. Ekkert mál er betur eða ítarlegar rætt hér á þessum vettvangi en þetta Icesave-mál sem við höfum nú rætt linnulaust í átta mánuði. Ég tel engum til gagns að þreyja þetta mál lengur og því síður að vísa því frá því að málið hverfur ekki við það. Það verður ekki undan því vikist að afgreiða það hér á Alþingi, allt annað er óskhyggja. Það er hlutverk okkar sem kjörinna fulltrúa á þjóðþinginu að leiða þetta mál til lykta. Kjörnir fulltrúar verða að hafa kjark til að taka erfiðar ákvarðanir þó að þær leiði til óvinsælda. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að ganga inn í nýja árið með þetta mál óleyst á herðum sér og það er skylda okkar við þjóðina að afgreiða það hér og nú. Ég segi nei við frávísun.