138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur brotið blað í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli. Hún hefur uppskorið vantraust í samfélaginu, hún er að vega að efnahagslegu sjálfstæði landsins með niðurstöðu sinni. Mikil tortryggni ríkir í samfélaginu vegna vinnubragða þar sem gögnum hefur ítrekað verið haldið leyndum og nýjar upplýsingar hafa verið að berast fram á síðasta dag.

Síðast í dag stöðvuðu stjórnvöld upplýsingastreymi til fjárlaganefndar, stöðvuðu það með valdi, leyndinni skyldi haldið áfram. Hún ber nafn með rentu, leyndarríkisstjórnin, sem hér situr við völd. (Gripið fram í.)

Það á hér vel við erindi úr ljóðinu Lífsþor eftir Árna Grétar Finnsson og ég vil flytja það, með leyfi forseta:

Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,

sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,

djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,

manndóm til að hafa eigin skoðun.

Þeir eiga skömmina sem greiða þessu máli atkvæði sitt hér á þingi. Ég segi nei.