139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað grafalvarlegt að Hæstiréttur hefur dæmt kosningarnar til stjórnlagaþings ógildar. Það kennir okkur eina ferðina enn að aldrei er nógsamlega vandað til verka. Við höfum mörg komið að þessu verki og við verðum öll að fara yfir það sem við höfum gert í því ferli. Ég nefni forsætisnefnd, allsherjarnefnd, landskjörstjórn, innanríkisráðuneytið og ábyggilega má nefna fleiri. Við hljótum að láta þetta okkur að kenningu verða og rýna allt sem við gerum betur héðan í frá.

Það breytir þó ekki því, virðulegi forseti, að á þessari stundu er mikilvægast að það sé skýrt að stjórnlagaþing verður haldið. Enginn afsláttur verður gefinn af því, hvað sem sjálfstæðismenn hamast. Það skiptir máli að ana ekki að neinu, hugsa nú enn betur en áður hvernig best sé að standa að þinginu svo enginn velkist í vafa um að þeir sem þar munu starfa hafi umboð til að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá.

Það er ekkert nýtt að sjálfstæðismenn þenji sig gegn stjórnlagaþingi, þeir eru einfaldlega á móti því að stjórnlagaþing verði haldið. Það er allt í lagi. Þeir ætla ekkert að skipta um skoðun og við því er ekkert að gera. Við hin skulum taka okkur þann tíma sem við þurfum til að gera þetta brýna verkefni þannig úr garði að enginn efist um að rétt sé á öllum tæknilegum atriðum haldið. Auðvitað mun það kosta peninga ef farið verður í nýjar kosningar, peninga sem við gætum vissulega notað til annarra hluta — en þó ekki brýnni hluta. Viðbrögð og kátína andstæðinga þess að farið sé í alvarlega endurskoðun á stjórnarskránni, og reyndar öllum hlutum í þjóðfélaginu, við þessari niðurstöðu Hæstaréttar styrkja einungis þá skoðun mína að stjórnlagaþingið sé eitt af mikilvægustu verkefnum í hinni svokölluðu endurreisn. (Forseti hringir.) Verkefnið núna er að ákveða næstu skref svo stjórnlagaþingið geti hafið störf sem fyrst.