140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að það skiptir máli að endurskoða og endurmeta umgjörð núverandi peningamálastefnu. Það er mjög auðvelt að sjá fyrir sér hættuna á stórfelldu hruni 2014 í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta í ljósi þeirrar spennu sem nú er að myndast í hagkerfinu innan gjaldeyrishaftanna og ef við gefum okkur að ekki verði ekki sýndur nægur agi í ríkisfjármálum eða næg festa í hagstjórninni og Seðlabankanum verði nauðugur einn kostur að hækka vexti og hækka vexti. Þá vitum við hvað bíður okkar og við höfum skelfilega reynslu af því hversu grátt íslenska krónan leikur íslenskt atvinnulíf þegar við erum svona berskjölduð fyrir flæði inn og út úr landinu. Það er stærsti vandi íslensku krónunnar og brýnasta verkefnið er að reyna að finna umgjörð utan um hana meðan við þurfum að búa við hana, til að draga úr þessari áhættu.

Stór ástæða hægs bata í íslensku efnahagslífi eftir hrun er einmitt sú staðreynd að sveiflur krónunnar höfðu drepið samkeppnisiðnaðinn á árunum fyrir hrun. Það er erfitt fyrir atvinnulífið að vinna úr einhverju sem er ekki til vegna sveiflna krónunnar.

Forsendan fram á við er agi í hagstjórn og ekkert kemur í staðinn fyrir hann. Upptaka evru með óábyrgri hagstjórn þar sem laun hækka umfram vöxt þjóðarframleiðslu er engin lausn heldur mun þvert á móti koma okkur mjög hratt og örugglega í stöðu eins og Grikkland er í núna. Þess vegna hef ég gagnrýnt lausatök í ríkisfjármálum, ég hef gagnrýnt það ef menn sýna ekki nægan aga í hagstjórninni og ég hef gagnrýnt þá kjarasamninga sem gerðir voru síðasta vor því ég taldi þá allt of dýra íslensku samfélagi og vera verðbólguhvetjandi. Við erum að hluta til að fást við afleiðingar þess í dag með of hárri verðbólgu.

Þetta á að verða okkur lærdómur til að gæta þess að tryggja núna samstöðu um verðstöðugleika og aga í ríkisfjármálum öllu öðru framar. Hvað getum við lært ef við horfum yfir stöðuna í Evrópu? Það er að ríki sem hafa ekki stjórnað sínum eigin útgjöldum og safnað skuldum, lenda hratt og örugglega í voða. Við eigum að byggja á þeirri samstöðu sem ég heyri að getur myndast hér og skapa sameiginlegan grunn um (Forseti hringir.) gengis- og peningamálastefnu sem byggir á þessum höfuðmarkmiðum; verðstöðugleika og aga í ríkisfjármálum.