140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum stefnu í gjaldeyrismálum, það er mjög mikilvæg umræða og inntak hennar er agi og agaleysi.

Í fyrsta lagi um kosti íslensku krónunnar. Hún lækkaði það mikið í verði eftir hrunið að laun lækkuðu, lán lækkuðu og innstæður lækkuðu á Íslandi. Útflutningurinn blómstraði í kjölfarið, bæði sjávarútvegur og meira að segja landbúnaður, og ferðaþjónusta og áliðnaður hafa einnig blómstrað vegna þess að krónan féll. Það hefur haldið uppi atvinnu og atvinnuleysi væri miklu, miklu meira ef við værum ekki með eigin krónu.

Hefðum við verið með evru á þeim tíma væri staðan mjög slæm. Þá hefðu öll bílalánin sem tekin voru haldið verðgildi sínu og öll íbúðalánin sem tekin voru með lágum vöxtum hefðu haldið verðgildi sínu. Þjóðin væri í verulegum vanda og skuldavandi heimilanna væri miklu, miklu stærri en í dag, af því að skuldirnar hefðu ekki verðfallið.

Það eru engar töfralausnir til, frú forseti. Ef við tækjum upp evru núna eða einhverja aðra mynt yrði hún með gjaldeyrishöftum. Ef við breyttum öllum innstæðum í evrur mundu flestir eða mjög margir vegna óöryggis flytja sínar evrur til útlanda. Við yrðum að hafa gjaldeyrishöft, við yrðum sem sagt að hafa sérstaka íslenska evru, og hvað er unnið við það?

Nei, við verðum að búa til grundvöll eða innstæðu fyrir nýrri mynt með því að stunda sparnað á öllum sviðum. Einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkissjóður þurfa að stunda sparnað, sýna aga í fjármálum, aga og aftur aga. Nú gerum við einmitt öfugt og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að snúa frá þeirri stefnu að ráðast stöðugt á fjármagn og sparifé sem núna er með neikvæðum vöxtum og er skattlagt sem aldrei fyrr.