140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:46]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Á þeim hálftíma sem við eyddum áðan í að ræða um gjaldmiðilsmál dóu væntanlega um 150 börn og á þeim hálftíma sem við eyðum í að ræða þetta mál deyja væntanlega önnur 150 af vannæringu, 300 á klukkutíma. Auðvitað er það þannig að á tveimur mínútum getur maður í raun ekki sagt neitt af viti um þessi mál nema að láta vita að við hér á Alþingi, þvert á flokka, látum okkur þessi mál varða, viljum gera enn betur en við höfum gert og viljum setja þetta í forgang.

Ég vil taka undir með þeim sem hafa þakkað Barnaheillum og öðrum félagasamtökum sem starfa að þessu nótt og dag og vinna gríðarlega ötult og öflugt starf við að gera okkur öll meðvituð um þessi gríðarlega stóru og átakanlegu mál og vinna að því að ráða á þeim bót. Það sorglega en um leið það sem getur gefið von í þessu efni er hvað það er þrátt fyrir allt tiltölulega einfalt að gera mjög stóra og mikla hluti, til dæmis með því að bæta steinefnum og vítamínum í mat, með því að einblína á konur og stöðu mæðra, ýta undir brjóstagjöf og líta á það sem algjört forgangsverkefni að setja börn í forgrunn og að sjálfsögðu — og það er pólitískt mál sem við þurfum líka að ræða — hvernig við sjáum landbúnaðarframleiðslu heimsins til frambúðar. Ætlum við að styrkja minni bændur, ætlum við að styrkja konur til að rækta land eða ætlum við að láta eins og ekkert sé og leyfa stórfyrirtækjum og alþjóðafjármagninu að rífa til sín land fátæks fólks og nýta það til enn frekari neysluhyggju okkar hinna ríku? (Forseti hringir.)

Að lokum þetta: Við erum rík, við erum mjög rík og getum gert enn betur. Ég þakka ráðherra fyrir framgöngu hans (Forseti hringir.) í þessu máli og veit að við þvert á flokka ætlum okkur að gera enn betur.