140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:30]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar. Það finnst mér góð hugmynd. Mér hefur oft fundist það vera þannig að þeir sem hafa með þessi mál að gera og hafa stýrt þessum málum út frá eigin hagsmunum og í gegnum sterk hagsmunafélög reyni að telja okkur hinum trú um að þetta sé flókið mál, við skiljum það ekki, okkur komi það nú eiginlega ekki við, það sé bara einkamál þeirra sem veiða og þeirra sem vilja veiða, það skipti til dæmis ekki sérstaklega miklu máli að þjóðin sé sátt, aðalmálið sé að menn nái sátt í einhverju bakherbergi um hvernig þetta eigi allt saman að vera. Það er viðmót eins og maður mætti stundum á sumum heimilum sem maður heimsótti í æsku: Krakkar, veriði nú bara úti að leika, fullorðna fólkið er að tala saman. Mér hefur oft fundist íslenska þjóðin, sem er auðvitað nýlenduþjóð og hefur ekki verið lengi sjálfstæð, vera í hlutverki barns. Ég vona að mér fyrirgefist að segja það að við svona áttum okkur eiginlega ekki á hvað við getum haft mikil áhrif á gang mála og að skoðun okkar skiptir máli.

Þjóðin er að þroskast. Hún hefur áttað sig á því að hún getur haft völd. Hún getur komið heilli ríkisstjórn frá ef henni blöskrar. Hún getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem henni finnst henni koma við og er kannski ósammála ríkjandi stjórnvöldum. Hún hefur líka áttað sig á því að hægt er að spyrja hana ráða í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og lagt er til hér og eins og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill leggja til að verði gert um nýja stjórnarskrá.

Ég held að þjóðin hafi sýnt það í þeim atkvæðagreiðslum sem þegar hafa farið fram, sérstaklega seinni atkvæðagreiðslunni um Icesave-málið. Það var gífurlega flókið mál um þjóðréttarlega samninga og þar var flækjustigið óendanlegt. Þjóðin tók afstöðu og hún kynnti sér virkilega málið. Stór hluti þjóðarinnar lagðist líka í að kynna sér yfir 500 frambjóðendur á stjórnlagaþing, þannig að mér finnst fólk standast þetta próf. Ég held að við getum alveg spurt þjóðina ráða um hvernig framtíðarskipan fiskveiðistjórnar á að vera.

Mig langar að minna á frumvarp Hreyfingarinnar um þessi mál og óska eftir því að nefndin sem málið fer til skoði þau sjónarmið sem þar koma fram. Ég á reyndar sjálf sæti í þeirri nefnd þannig að það eru hæg heimatökin hjá mér að hafa áhrif á það.