140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

samningsveð.

288. mál
[15:42]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Já, ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið samþykki fyrir lok þings í vor þetta lyklafrumvarp vegna þess að mjög margir tilheyra hópnum ungt fólk og fólk sem flutti til Reykjavíkur á árunum 2004–2008 utan af landi sem vill losna úr þeirri skuldsetningu sem það neyddist til að fara út í til þess að hafa húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Ástæðan fyrir því að hér er hafin fasteignabóla er ekki bara sú að við höfum gjaldeyrishöft og lífeyrissjóðirnir komast ekki út með iðgjöldin okkar til að fjárfesta í einhverju arðbæru fyrir utan landsteinana. Ástæðan er líka sú að fasteignir seljast ekki og hafa ekki selst í mörgum hverfum og á mörgum stöðum úti á landi, það er frost. Fólk er að berjast við að halda þessum fasteignum á sama tíma og það er jafnvel með þær á sölu og búið að vera með þær á sölu í fjögur ár. Ég bý til dæmis í hverfi í Reykjavíkurborg þar sem eignir hafa ekki selst í fjögur til fimm ár. Ég tel að ástæðan fyrir því að það hefur eiginlega engin verðlækkun orðið í því hverfi sé meðal annars sú að enginn vill kaupa fasteignir þar. Frost á fasteignamarkaði þýðir auðvitað það að fólk sér ekki neina leið úr skuldavandanum nema þá kannski með því að skila inn lyklunum. Það er ein leið fyrir fólk úti á landi og í hverfum þar sem eignir seljast ekki til að komast út úr vandanum. Þess vegna skora ég á þingið enn og aftur að samþykkja nú þetta lyklafrumvarp.