141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um þann þáttinn skal ég ekki fullyrða á þessu stigi en vísa aftur í reynslu og fyrirmynd sem við höfum frá Noregi. Það var spurt sérstaklega hvaða aðilar það væru í Noregi sem við hefðum leitað til. Norska menntamálaráðuneytið fer með þessi mál og við, sérfræðingar úr innanríkisráðuneytinu og utanaðkomandi aðili og ég var með í för, fórum í norska ráðuneytið. Við fengum þar mjög góða yfirferð og fengum þennan aðila síðan til að koma hingað til lands og halda kynningu á fyrirkomulagi Norðmanna. Við buðum á þá kynningu fulltrúum allra happdrættanna hér. Þetta var allfjölmennur fundur, ætli það hafi ekki verið 50–60 manns á Hótel Loftleiðum, sem svo hét áður, þar sem farið var yfir stöðuna og það fyrirkomulag sem Norðmenn höfðu komið sér upp. Það er þarna sem við erum að leita.

Ég tel í lægri kantinum þá fjármuni sem renna í forvarnir. Forvarnir eru dýrar og eftirmeðferð er það líka. Við þekkjum hjá SÁÁ að það eru dýr sjúkrahús sem sinna til dæmis alkóhólisma. Við erum einfaldlega að segja að við höfum ekki gert nógu vel og viljum beina því í þennan farveg. Þarna erum við að finna umgjörð utan um hana. Að ætla að afgreiða þetta út af borðinu núna og gera lítið úr þessu á þeirri forsendu að þetta heiti stofa eða stofnun er ómerkilegt. Eigum við ekki að einblína á starfsemina og markmiðin sem við erum að setja okkur áður en Alþingi tekur á þennan hátt á þessum málum? Af hverju að vitna í blaðagreinar þar sem menn henda gaman að málflutningi um þetta (Forseti hringir.) grafalvarlega mál? Ég vona að það fólk sem þekkir til þessa vanda af raun eða í nágrenni sínu fylgist með þessari umræðu.